141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[16:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þó að þessi áætlun sé kölluð framkvæmdaáætlun þá er hún það ekki í raun. Áætlunin gildir í um eitt ár og felur í sér ramma utan um núverandi starfsemi og almenna stefnumótun. Meginhluta þess tímabils sem áætlunin tekur til, sem er árið 2013, hefur ramminn þegar verið ákveðinn með fjárveitingu.

Áætlunin er því miður ekki nægilega markviss. Enginn tímarammi er markaður fyrir einstök verkefni, ekki er neins staðar að finna kostnaðargreiningu á þessum verkefnum eða vegna áætlunarinnar í heild og er hvergi gert ráð fyrir hinni nýju meðferðarstofnun, sem áætlað er að kosti um 250 millj. kr., á fjárlögum yfirstandandi árs. Engu að síður skrifum við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir undir nefndarálitið með fyrirvara. Við vekjum athygli á þeirri gagnrýni sem fram kemur hjá meiri hlutanum í þessum efnum. Það kom auðvitað til greina að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Við töldum hins vegar ekki óeðlilegt að afgreiða málið í ljósi þess að í raun og veru værum við að uppfylla ákveðin lagaleg skilyrði (Forseti hringir.) og að búið væri að marka rammann utan um starfsemina með fjárveitingunum árið 2013, sem er hér um bil allur sá tími sem áætluninni er ætlað að ná yfir.