141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[16:59]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga skuli hafa verið samþykkt. Það er skylda þingsins að leggja fram þingsályktunartillögu og framkvæmdaáætlun í barnavernd. Því miður kemur hún nokkuð seint fram þannig að hún er eingöngu til eins árs. Það er mikil hvatning í breytingartillögunni sem meiri hlutinn lagði til og við höfum núna samþykktir um að áætlunin verði virkari í framtíðinni, að þingið og ríkisstjórn á hverjum tíma hafi meiri samvinnu um áætlunina og að eftirfylgni þingsins með henni verði meiri.

Barnavernd er mikilvægur málaflokkur. Við höfum e.t.v. ekki sinnt þeim flokki nægilega, ekki verið nægilega vakandi. Því höfum við fengið að finna fyrir og heyra um á undanförnum dögum. Ég hvet til þess að Alþingi (Forseti hringir.) framfylgi barnasáttmálanum og tillögum UNICEF í þeirri skýrslu sem kom nýlega fram. Ég hvet Alþingi framtíðarinnar til að vinna dyggilega að barnaverndarmálum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)