141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

endurbætur björgunarskipa.

471. mál
[17:07]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hérna greiðum við atkvæði um mikla prýðistillögu sem flutt var af nokkrum hv. þingmönnum, Jóni Gunnarssyni og fleirum, þar sem innanríkisráðherra er falið að gera samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um endurbætur og viðhald björgunarskipa árunum 2014–2021. Nefndin telur einsýnt að þörfin fyrir björgunarskip sé mikil og fari vaxandi og að áríðandi sé að leita til vel búinna björgunarskipa. Brýnt sé að allur útbúnaður til björgunar- og slysavarna sé ávallt í fullkomnu ásigkomulagi enda sé réttur tækjabúnaður nauðsynlegur hluti af hverri björgunaraðgerð.

Í allsherjar- og menntamálanefnd var mikil samstaða um að þetta væri eitt af þeim þingmannamálum, sem svo eru kölluð, sem væri mjög áríðandi að afgreiða úr nefndinni áður en þingveturinn væri úti og gæti gengið til atkvæða í þingsal, sem nú er að gerast, og fagna ég því mjög. Þetta er eitt af mörgum góðum þingmannamálum sem komu úr flokkunum í allri sinni fjölbreytni og er ánægjulegt að það sé komið á leiðarenda til atkvæða í Alþingi.