141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

endurbætur björgunarskipa.

471. mál
[17:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Slysavarnafélagið Landsbjörg rekur 14 stór björgunarskip hringinn í kringum landið ásamt fjölda smærri báta. Þrátt fyrir að áhafnir þessara skipa vinni starf sitt allt í sjálfboðavinnu er rekstur þeirra einn dýrasti þátturinn í starfsemi félagsins. Þessi skip komu flest til landsins á síðasta áratug og er komið að því að fara í viðhaldsátak til þess að lengja líftíma þeirra. Félaginu er ofviða að gera það án aðkomu hins opinbera og því fagna ég mjög að Alþingi skuli stíga þetta skref í dag.

Ég þakka meðflutningsmönnum mínum úr öðrum flokkum fyrir stuðning þeirra við málið, hæstv. innanríkisráðherra fyrir hans stuðning og nefndinni fyrir vel unnin störf. Ég fagna því að Alþingi skuli sýna sjálfboðaliðastarfinu í landinu þann stuðning sem raun ber vitni í dag.