141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:22]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er vissulega vonbrigði. Með því á að gera lífeyrissjóðunum kleift að stunda áhættufjárfestingar. Í frumvarpinu er ákvæði um að lífeyrissjóðir geti fjárfest í óskráðum verðbréfum. Samkvæmt rannsóknarnefnd lífeyrissjóðanna má rekja hluta af bókfærðu tapi lífeyrissjóðanna, sem núna er komið upp í 520 milljarða, til þess að þeir fjárfestu í óskráðum verðbréfum.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra af hverju verið er að veita þessa heimild í ljósi reynslunnar af hruninu. Ég vil líka fá að vita hvers vegna lærdómur er ekki dreginn af hruninu og hvers vegna ekki er farið í kerfisbreytingu á lífeyrissjóðakerfinu þegar það liggur ljóst fyrir að við töpuðum á því kerfi í hruninu og að það er allt of stórt fyrir íslenskt hagkerfi.