141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara í gegnum frumvarpið sem snýst jú fyrst og fremst um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna en fjallar lítið um skyldutryggingar lífeyrisréttinda, eins og frumvarpið heitir og gæti kannski misskilist.

Á áðurnefndu tækni- og hugverkaþingi, þar sem hæstv. ráðherra var ásamt þeim sem hér stendur og nokkrum fleiri þingmönnum, var rædd tillaga frá frambjóðanda Framsóknarflokksins í Reykjavík, Frosta Sigurjónssyni, um að heimila lífeyrissjóðunum að kaupa bréf á svokölluðum First North markaði sem gæti að einhverju leyti opnað fyrir lífeyrissjóðina að taka þátt í fjárfestingum sem væru svona aðeins víðari og heimila fyrirtækjum að skrá sig þar og minnka þar af leiðandi áhættuna á þessari innanlandsbólu sem ellegar er fyrir hendi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort aðrar leiðir hafi verið skoðaðar en það einungis að hækka þakið úr 20% í 25%.