141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé hugleitt í alvörunni að frumvarpið verði samþykkt, það eru þrír starfsdagar eftir hjá Alþingi.

Í öðru lagi vil ég spyrja: Nú hefur raunávöxtun á markaði lækkað úr 4% niður í 2%, jafnvel 1,9%. Lífeyrissjóðirnir eiga sífellt erfiðara innan gjaldeyrishafta að fá fjárfestingartækifæri. Getur það ekki leitt til þess að bólumyndun verði, t.d. í hlutabréfum sem hafa hækkað mjög mikið frá hruni, mjög mikið? Og ekki er búið að laga það sem var meinið hérna fyrir hrun, sem var raðeignarhald og krosseignarhald og olli miklum og gífurlegum afskriftum, milljarðatugum, því að ekki reyndist vera raunveruleg eign inni í félögunum. Stendur ekki til að laga þetta yfirleitt?

Síðan er spurningin hvort heppilegt sé í þessari stöðu að slaka á kröfu með litlu hlutafélögin, hvort þurfi þá ekki að herða mikið á því að menn stundi þá áhættudreifingu að vera að fjárfesta í mörgum félögum, og eins það að menn fari mjög varlega í fjárfestingar.