141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta hljómar allsérstakt fyrir mér. Mér sýnist að þarna sé í það minnsta verið að koma á framfæri einhverjum upplýsingum eða girða fyrir að menn verði ásakaðir fyrir einhver mistök eða einhverjar afleiðingar síðar.

Það er vitanlega ljóst að mikla fjármuni vantar í opinberu sjóðina líkt og hina almennu. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það bara þannig. Einhver hundruð milljarða vantar, ef ég man rétt, inn í hvort apparat — ég ætla bara að orða það á þann hátt. Það er hins vegar alveg ljóst að lífeyrissjóðunum sem og öðrum fjárfestum er býsna þröngt sniðinn stakkur á Íslandi í dag þegar hægt virðist ganga að koma Kauphöllinni af stað, alla vega þannig að hægt sé að fjárfesta þar. Lífeyrissjóðirnir liggja á miklum peningum sem þeir þurfa að koma í fjárfestingar til að standa undir því hlutverki sem þeim er ætlað. Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé einhvers konar neyðarráðstöfun af hálfu ríkisstjórnarinnar að grípa til þess að hækka prósentuna sem sjóðirnir geta fjárfest fyrir í óskráðum bréfum og einnig breytingar varðandi samlagsfélög, hvort það sé ekki bara staðfesting á því sem mörg okkar hafa haldið fram, að hér þurfi að verða til umhverfi þar sem lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar geti komið fé sínu í framkvæmd eða vinnu, ef ég má orða það svo.

Það er líka spurning hvort hv. þingmaður hafi einhverja skoðun á því, þar sem mér skilst að nú sé bundið í lög að lágmarksávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna skuli vera 3,5%, hvort það standi í vegi fyrir því að lífeyrissjóðir fjármagni eða geti komið að verkefnum með ríkisvaldinu, þ.e. sú prósentutala sem nefnd er í lögum.