141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[17:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að því síðasta sem hv. þingmaður nefndi, ávöxtunarkröfu upp á 3,5% sem er á lífeyrissjóðunum. Það hefur auðvitað margoft verið rætt en við í hv. fjárlaganefnd höfum til að mynda aldrei tekið það til efnislegrar skoðunar. Ég treysti mér því ekki til þess að vera með neinar yfirlýsingar um það eða upplýsingar fyrir hv. þingmann. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að menn skoði þetta umhverfi í heild sinni. Þetta er góð ábending hjá hv. þingmanni og ég tek undir hana.

Ef við höldum okkur við A- og B-deildina er B-deildin með þeim hætti að búið er að færa tæpa 400 milljarða sem skuldbindingu á ríkissjóð. Við munum eftir því 1998 þegar A-deildin var stofnuð að sú ákvörðun var tekin út frá því að menn voru með þetta mikla fjall fyrir aftan sig, það hafði safnast upp, og þeirri vitleysu skyldi hætt eða þeirri stefnu. Þá var sagt: Nú skulum við stofna A-deild og loka B-deildinni til þess að við munum geta rekið lífeyrissjóðakerfið og gjöld launagreiðenda á núvirði. Við settum þetta fram í minnihlutaálit okkar í hv. fjárlaganefnd og bentum á að það þyrftu að vera 4 milljarðar til viðbótar í útgjöldum ríkissjóðs á gjalddagahliðinni fyrir árið 2013 til að standa undir þessum hluta skuldbindingarinnar.

Ég hef oft varað við þessu. Skuldbindinga vegna A-deildarinnar er getið í skýringum í ríkisreikningi og um þær hefur komið sú ábending frá hv. fjárlaganefnd, sem engar deilur eru um, að taka þurfi ákvörðun um — og það er ætlast til að það verði gert í síðasta lagi fyrir lokafjárlög fyrir árið 2012 sem er í meðförum núna — með hvaða hætti beri að færa þetta, hvort það sé nóg að geta þess í skýringum eða hvort þurfi að færa þetta inn sem skuldbindingu. Það er auðvitað mikilvægt því að upprunalega þegar A-deildin var stofnuð ætluðu menn að hætta að safna skuldbindingum. Svo getum við auðvitað tekið langa umræðu um það umhverfi sem við búum við og aðstæður akkúrat á þessum tíma en ég get ekki séð annað en að við séum á nákvæmlega sömu leið með A-deildina og (Forseti hringir.) B-deildin endaði.