141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og get alveg tekið undir síðustu orð í ræðu hennar um að mikilvægt sé að íslensk fyrirtæki, sem eru svo fá skráð á markaði, hafi tækifæri og leiðir til þess að sækja sér fjármagn frá jafntraustum aðilum og lífeyrisjóðunum. En það höfum við vitað um dálitla hríð og verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með svör hæstv. ráðherra. Mér fannst það vera mjög léleg afsökun hjá henni fyrir því að við værum að ræða þetta mál í seinustu þingvikunni að það hefði verið lagt fram fyrir tveimur vikum og ekki komist til umfjöllunar.

Ákall fyrirtækjanna, skýrslan og nefndin sem hæstv. ráðherra nefndi er væntanlega ekki nýr vandi. Það er ekki nýtt. Var það að gerast fyrir tveimur vikum? Ég held ekki. Málið kemur hingað inn allt of seint. Jafnvel þótt það hafi komið 28. febrúar, fyrir tveimur vikum, er það að sjálfsögðu allt of seint þegar um er að ræða mál sem lætur lítið yfir sér en er stórmál. Ég er ekki að segja að þetta sé vont mál en við verðum að vinna það vel. Ég leyfi mér að halda því fram, einmitt vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að hún vildi fara að öllu með gát, að það sé ábyrgðarleysi að ætla þinginu svo skamman tíma í að fjalla um þetta mál. Mér finnst það einkar sorglegt þegar um er að ræða mál sem við gætum öll náð samkomulagi um ef rétt væri að því staðið vegna þess að ég sé jákvæðar hliðar á því að íslensk fyrirtæki fái tækifæri til þess að leita sér fjármagns. En það er ekki sanngjarnt af hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra að segja að ástandið í þinginu sé (Forseti hringir.) þess valdandi að við ræðum málið allt of seint.