141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að spyrja hana út í þá staðreynd, sem blasir við og ég hygg að sé eina ástæða þess að þetta frumvarp er komið til þingsins, að möguleikar lífeyrissjóðanna á fjárfestingum eru mjög takmarkaðir þessa dagana, meðal annars vegna gjaldeyrishaftanna, sem við erum reyndar erum nýbúin að afreka að gera nánast óendanleg. Við lýstum því alla vega yfir nú í vikunni að þeim málum ætti að breyta. Hvað sem okkur finnst um að taka út eitthvert ákvæði um gjaldeyrishöft þá gerðum við það nú.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef aukin fjárfesting hefði átt sér stað þetta kjörtímabil þegar fjárfestingin hefur verið í algjöru lágmarki, hefði það ekki flýtt fyrir og hafa áhrif á afnám gjaldeyrishaftanna og um leið auka möguleika lífeyrissjóðanna á því að fjárfesta? Við vitum að einhver fjárfestingarverkefni hafa ekki gengið eftir sem menn ætluðu sér að fara í á kjörtímabilinu. Því spyr ég hvort það sé ekki afleiðing af höftunum að lífeyrissjóðirnir skuli þurfa að bjóða fjárfestum upp á að auka heimildir til þess að fjárfesta í óskráðum bréfum og svo framvegis.

Það er alveg ljóst að þörf lífeyrissjóðanna til þess að fjárfesta á næstu árum er upp á mörg hundruð milljarða til þess að standa undir þeim lögum og skyldum sem um þá gilda. Eins og fram kemur í frumvarpinu er um að ræða (Forseti hringir.) 130–150 milljarða eða eitthvað svoleiðis, bara á árinu 2013, er það ekki rétt?