141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[19:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og ég kom inn á í ræðu minni held ég jafnvel að væntingarnar geti verið mun meiri en niðurstaðan, einfaldlega vegna þess að lífeyrissjóðirnir verða að fara varlega og eiga að fara varlega. Ég minni á umræðu þar sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir talaði um skýrslu um lífeyrissjóðina og að tap lífeyrissjóðanna á fjárfestingum í óskráðum félögum hefði verið umtalsvert. Ég held að það muni meðal annars verða til þess að menn vilji ganga nokkuð varlegar.

Það er líka, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, augljós kostnaður af gjaldeyrishöftunum. Annars vegar er verið að missa af tækifærum erlendis þótt vissulega megi segja að þau séu ekki alls staðar svakaleg þar sem lægð er í efnahagslífi um allan heim eða mestan hluta þess heims sem liggur okkur næst, ekki síst í Evrópu og að hluta til í Bandaríkjunum líka. Hins vegar er það sá kostnaður sem er erfitt að meta því að ef þeir gríðarlegu fjármunir sem lífeyrissjóðirnir eru lokaðir með inni í landinu búa til nýtt bóluhagkerfi með tilheyrandi vandræðum sem síðan hrynur er það auðvitað kostnaður sem við viljum aldrei sjá aftur.