141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[19:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú eiginlega ekki andsvar, þetta er meira svar, vegna þess að hv. þingmaður spurði mig spurningar sem snerist um skattaívilnanir vegna fjárfestinga í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það hefur lengi verið mikið áhugamál okkar og núverandi ríkisstjórnar að koma því áfram. Hv. þingmaður veit hvernig það fór á sínum tíma. Við lentum í ákveðnum mótbyr hjá ESA. En við höfum í vetur verið í samráði við þá og farið mjög vel yfir málið. Við erum komin með ákveðna lendingu sem ég tel að sé afar góður kostur. En svo var það einfaldlega þannig að það átti eftir að skrifa frumvarpið. Við sáum ekki fram á að koma því í gegn á þessu þingi, því miður. Frumvarpið verður þá tilbúið fyrir nýja ríkisstjórn til að taka í gegn. Ég er alveg viss um að ég og hv. þingmaður, eða hver svo sem þar mun sitja, ættum að geta sameinast í því á nýju þingi að styðja þann sem það flytur ötullega í að koma því í gegn.