141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[19:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að nýta tækifærið og svara mér. Ég tek undir að þetta er mjög jákvætt verkefni sem mun skila miklu fyrir þennan hluta fyrirtækjanna, sprotafyrirtækjanna og nýsköpunarfyrirtækjanna, sem munu að ég held eiga erfitt með að sækja sér fé samkvæmt þessari leið, að auka heimild lífeyrissjóðanna til fjárfestinga, þar sem ég held að þeir muni ganga mjög varlega þar um.

En ég verð að segja eins og er að ég undrast það að þetta hafi tekið þennan tíma vegna þess að eftir þeim upplýsingum sem ég hef eru sambærileg kerfi til bæði í Hollandi og Svíþjóð. Eiginlega er merkilegt að okkar frumvarp sem kom fram hjá ríkisstjórninni fyrir tveimur árum hafi ekki verið sniðið betur að þeim fyrirmyndum. Og að ESA hafi verið að setja hornin í okkur þar sem sambærilegir hlutir eru til í þeim tveimur ESB-löndum.