141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[20:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að auka þurfi fjárfestingargleðina og það er ágætlega orðað. Það er alveg ljóst að auka þarf fjárfestingar. Ekki bara til að lífeyrissjóðirnir hafi svigrúm eða tækifæri til að ávaxta fjármuni sína, heldur að sjálfsögðu líka til koma til móts við aðra sem vilja fjárfesta og leggja fjármuni í samfélagið og í einhver verkefni sem geta svo vonandi skilað arði til samfélagsins.

Maður veltir því væntanlega fyrir sér hvort einhver hætta sé á, og kannski er rétt að spyrja hv. þingmann um áhættuna, að verið sé að einhverju leyti að ýta undir svipaða hluti og voru í gangi fyrir nokkrum árum þegar menn fjárfestu mikið í óskráðum bréfum sem teljast væntanlega áhættumeiri en þau skráðu. Ég er ekki mjög góður í því, ég viðurkenni það, en ef ég skil þetta rétt er meiri áhætta í óskráðum bréfum. Ég velti fyrir mér hvort verið sé að taka of mikla áhættu með því að rýmka heimildirnar til að fjárfesta í óskráðum bréfum. Það þarf þó ekki endilega að vera.

Þrýstingurinn hlýtur að vera nokkuð mikill á lífeyrissjóðina að koma fjármunum út, koma þeim í fjárfestingar. Fá fyrirtæki í Kauphöllinni eru til þess bær að taka við mikið af fjármunum frá lífeyrissjóðunum eða skipta um eigendur að bréfum. Þegar einn eða fáir stórir aðilar skipta þeim á milli sín að hlýtur að sjálfsögðu að verða til einhvers konar spírall sem getur varla endað nema á einn hátt og við þekkjum það allt of vel á Íslandi. Þar er ég að vísa til þess að af því lífeyrissjóðirnir halda á Framtakssjóði ásamt ríkisbankanum Landsbankanum hlýtur maður að velta fyrir sér áhrifum af öllu því (Forseti hringir.) samkrulli.