141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað síðustu spurningu hv. þingmanns með jákvæðum hætti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt og gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að ýta undir hlutabréfamarkað hér með það að markmiði að sem flest fyrirtæki verði á skipulögðum skráðum markaði þannig að viðskipti með bréf þeirra, hvort sem það eru hlutabréf eða skuldabréf, geti farið fram eftir þeim reglum sem kauphallarviðskiptum eru sett. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Það eru vissulega vonbrigði að ekki skuli meira hafa gerst á undanförnum árum. Auðvitað var eðlilegt í kjölfar hrunsins að hlutabréfamarkaður yrði fyrir miklu áfalli. Við vitum um afdrif mjög margra þeirra fyrirtækja sem áður voru á hlutabréfamarkaði og það er ekkert skrýtið að þar skuli hafa orðið bæði sú gríðarlega fækkun sem varð á félögum á markaði og líka ákveðin tortryggni eða ótti við að fjárfesta með þeim hætti sem menn höfðu áður gert. Þetta var bæði hrun í raunverulegum viðskiptum en líka hrun á trausti, fram hjá því verður ekki horft. Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi hefur ekki náð sér upp úr því.

Ég er þeirrar skoðunar að með annarri stjórnarstefnu hefði mátt ýta meira undir uppbyggingu atvinnulífsins en gert hefur verið. Ég held að önnur skattstefna, önnur stefna varðandi starfsumhverfi fyrirtækja, og annað andrúmsloft í garð atvinnulífsins af hálfu stjórnvalda og meiri hluta þings, hefði verið jákvæð í þessu sambandi. En ég tek það fram að það er ekki skrýtið að það skuli hafa tekið tíma að ná sér á strik aftur en ég er þeirrar skoðunar að það hafi gerst allt of hægt.