141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég lauk ekki alveg við að klára nokkur atriði varðandi þetta frumvarp. Í fyrsta lagi hlýtur maður að spyrja sig: Af hverju þarf þær fjárfestingarreglur sem eru í 36. gr. laganna um lífeyrissjóði? Af hverju þarf að hafa vit fyrir stjórnum lífeyrissjóðanna að þessu leyti, af hverju geta þær ekki unnið og búið sjálfar til reglur um fjárfestingar til að vinna eftir? Því er til að svara, herra forseti, að ríkið skuldbindur alla launþega þessa lands að greiða í lífeyrissjóði. Atvinnurekandinn greiðir 8% og þeir sjálfir 4%, yfirleitt eru þetta um 12%. Hjá ríkisstarfsmönnum er þetta 15,5% samanlagt, en þyrfti að vera 19,5%. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Þessi mikla skylda, skyldusparnaðurinn í lífeyrissjóðina, gerir að verkum að ríkið hefur talið sig nauðbeygt til að hafa eftirlit og setja reglur um hvernig þessum peningum er ráðstafað. Þess vegna erum við að setja hér reglur um að víkka út ákveðnar heimildir og leyfa lífeyrissjóðunum að fjárfesta meira í óskráðum bréfum. Það þýðir náttúrlega aukna áhættu og hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar þarf að skoða það.

Ég lofaði líka að nefna vaxtaviðmið lífeyrissjóðanna, sem sumir kalla ávöxtunarkröfu, 3,5%. Í lögunum stendur að eftir 40 ára venjulega iðgjaldagreiðslu eigi sjóðfélagarnir að eiga 56% af launum sem lífeyri. Þetta er mjög háleitt markmið og er mjög háð því hvað hægt er að ná mikilli raunávöxtun umfram laun á starfstíma mannsins. [Kliður í þingsal.]

Í frumvarpi sem ég flutti, mál 401, þar sem ég geri ráð fyrir því að sjóðfélagar kjósi sjóðstjórnina enda eru þeir þeir einu sem eiga réttindi hjá lífeyrissjóðunum, þeir einu sem eiga réttindi á móti þeim miklu fjármunum sem eru í lífeyrissjóðunum, var ég með viðauka sem nefnist vaxtaviðmið lífeyrissjóðanna 3,5%. Í honum fjalla ég um það hvað iðgjaldið þyrfti að vera ef ávöxtunarkrafan eða raunvextirnir lækkuðu. Þeir eru núna 2%, þeir eru komnir undir 2%. Samkvæmt töflu sem ég fékk útreiknaða þyrfti iðgjaldið að hækka úr 12% í 17,2%, það er 5,2% hækkun á iðgjaldi yfir alla línuna, allan launamarkaðinn. Það eru gífurlegar hækkanir. Eða það þyrfti að skerða lífeyri á samsvarandi hátt til lífeyrisþega eða að hækka mætti ellilífeyrisaldurinn, en hvert 0,5% prósent í raunávöxtun þýðir þriggja ára hækkun á ellilífeyrisaldri þannig að það gengur mjög hægt.

Þetta var um vaxtaviðmiðið. Það er eingöngu sett fram til að jafna stöðu yngri og eldri sjóðfélaga þannig að þeir séu jafnsettir. Og ef ekki næst sú raunávöxtun sem gert er ráð fyrir þarf að grípa til ráðstafana; hækka iðgjaldið eða skerða réttindin, sem er ekki hægt samkvæmt þessari reglu í lögunum um lífeyri sem 56% af launum. Þá er ekkert eftir nema hækka iðgjaldið eða hækka ellilífeyrisaldurinn.

Svo langar mig að tala aðeins um það af hverju er slæmt að lífeyrissjóðirnir geti bara fjárfest innan lands. Þegar lífeyrissjóðirnir fjárfesta innan lands má segja að þjóðin í heild sinni skuldi sjálfri sér þá eign sem er í lífeyrissjóðunum. Ef lífeyrissjóðirnir hefðu ætíð fjárfest innan lands þá kemur að því, þegar þeir þurfa á fjármagni að halda, þegar þeir hætta að dæla peningum út í atvinnulífið, sem stafar af því að lífeyrir hækkar og hækkar og iðgjaldið stendur í stað sem hlutfall af launum, að þeir fara jafnvel að taka peninga til baka úr atvinnulífinu. Og það verður ekki greitt af neinum öðrum en launþegum þess tíma. Ef við ætluðum því að byggja upp raunverulegt lífeyriskerfi sem fólk gæti notið þyrftu lífeyrissjóðirnir að fjárfesta erlendis. En þeir þurfa ekki bara að fjárfesta erlendis heldur þarf þjóðin í heild sinni að flytja út gjaldeyri, hún má ekki mynda skuldir á móti eins og hún hefur reyndar gert alla tíð.

Það yrði því að taka upp algjörlega nýja stefnu um að fjárfestingar lífeyrissjóðanna i útlöndum yrði nettóútstreymi gjaldeyris. Og þá mundi það gerast, þegar við þyrftum á peningum að halda til að borga lífeyri, að útlendir aðilar, útlendir launþegar mundu borga það en ekki innlendir.