141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

629. mál
[22:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Á undanförnum mánuðum hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið haft til skoðunar þrjú atriði í lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda vegna athugasemda ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Þau varða samruna fyrirtækja yfir landamæri, skattlagningu á lágskattasvæðum og skattskyldu starfsmannaleigna. Miðað var við að á þeim yrði tekið í þessu frumvarpi í þeim tilgangi að uppfylla skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, en að mati ESA er í umræddum ákvæðum laganna gerður greinarmunur á grundvelli þjóðernis sem felur í sér mismunun sem er ekki í samræmi við grunnreglur EES-samningsins.

Við vinnslu frumvarpsins kom hins vegar í ljós að breytingar á ákvæði því er tekur til skattlagningar við samruna hlutafélaga eru flóknari en virtist í fyrstu. Litið hefur verið til norsku reglnanna um samruna yfir landamæri við endurskoðun þeirra íslensku, en þær falla ekki fyllilega að íslenskum skattalögum þannig að ekki var auðvelt að aðlaga þær beinlínis að okkar reglum og því þarf að skoða málið betur. Þeirri vinnu verður nú hraðað og er stefnt að því að frumvarp þess efnis verði lagt fram á haustþingi á þessu ári með það auðvitað fyrir augum að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt EES-samningnum. Þar af leiðir eru í frumvarpinu einungis lagðar til breytingar á ákvæðum er tengjast skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum og líka erlendum starfsmannaleigum.

Ég geri þá grein fyrir hvorri tillögu um sig. Hvað varðar þær breytingar sem lagðar eru til vegna erlendra starfsmannaleigna eru þær til að koma til móts við formlega tilkynningu ESA þar sem fram kemur það álit að íslenskar reglur sem kveða á um að notendafyrirtæki beri ábyrgð sem launagreiðandi, hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu, brjóti í bága við EES-samninginn þar sem ákvæðið taki eingöngu til erlendra starfsmannaleigna samkvæmt orðanna hljóðan. Sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu vegna þessa gengur út á að taka af allan vafa um að í þeim tilfellum þegar notendafyrirtæki ber ábyrgð sem launagreiðandi, hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu, eigi það við hvort sem um er að ræða innlendar eða erlendar starfsmannaleigur með staðfestu í öðru ríki innan EES, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum.

Þá er í frumvarpinu lagt til að breytingar verði gerðar á ákvæði tekjuskattslaga á skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum, svokallaðar CFC-reglur. Er það gert til að koma til móts við þær athugasemdir ESA að í ákvæðinu sé ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu „raunveruleg atvinnustarfsemi“ og skilgreining hugtaksins í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum er lögfesti ákvæðið sé of þröng. Því er lagt til með þessu frumvarpi að fjármála- og efnahagsráðherra verði gert skylt að skilgreina hugtakið „raunveruleg atvinnustarfsemi“ í reglugerð ásamt nánari ákvæðum um framkvæmd ákvæðisins.

Þá er lögð til breyting á heiti ákvæðisins þannig að ekki leiki vafi á því um hvað ákvæðið fjallar en það fjallar um skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum og gæti heitið „erlends“ í fyrirsögninni valdið misskilningi.

Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um að tap sé eingöngu hægt að færa á móti hagnaði lögaðila á lágskattasvæði, þ.e. CFC-félaga, sem eru í eigu íslenskra félaga eða einstaklinga. Hér er um að ræða áréttingu og ítarlegri skilgreiningu á reglu sem ákvæðið felur nú þegar í sér.

Lögð er til sú breyting að fella brott skyldu ráðherra til að birta lista yfir þau lönd og svæði sem skattlagning samkvæmt CFC-ákvæðinu tekur til. Svokallaður svartur listi yfir lágskattaríki getur hvorki talist bindandi né tæmandi þar sem endanlegt skatthlutfall þeirra félaga, sjóða eða stofnana sem hafa þar skattalegt heimilisfesti liggur ekki fyrir nema eftir nákvæma yfirferð skattyfirvalda. OECD hefur nú hætt útgáfu skilgreinds lista yfir lágskattaríki enda hafa öll ríki sem áður voru á slíkum lista skuldbundið sig til þess að veita upplýsingar um skattamál á grundvelli samninga.

Að lokum er rétt að geta þess að ekki er talið að breytingarnar muni hafa áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að þessari lokinni.