141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

endurskoðendur.

664. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, með síðari breytingum. Aftur er það efnahags- og viðskiptanefnd öll sem flytur sem flytur þrjár breytingar við 15. gr. laganna og 32. gr. laganna.

Við breytum 15. gr. þannig að við 2. mgr. bætist nýr töluliður um að endurskoðandi gæti að fyrirmælum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Svo bætist við ný málsgrein um að endurskoðendaráð hafi heimild til samvinnu við eftirlitsaðila í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um upplýsingaskipti og eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum félaga sem eru með skráða skrifstofu utan Evrópska efnahagssvæðisins en gefa út verðbréf sín sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.

Í 2. gr. frumvarpsins bætist við 32. laganna nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig eru innleidd ákvæði ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2010/485 um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43 og ákvæði ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2011/30 um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011 og 32/2012.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að hér leggur nefndin til breytingar á þessum lögum til að koma til móts við alþjóðlegar skuldbindingar okkar.