141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að segja undir þessum lið, störf þingsins, að það var sérstakt fagnaðarefni í gær að vantrauststillaga hv. þm. Þórs Saaris var felld með miklum mun, á afgerandi hátt alla vega, þannig að staða ríkisstjórnarinnar að því er stjórnmálaskýrendur fjalla um í dag hefur heldur styrkst. (Gripið fram í.) Það er ánægjuefni, hv. þingmaður.

En ég vil ræða aðeins um störf þingsins og þau fjölmörgu viðfangsefni sem við blasa. Það liggur fyrir að nú þarf að afgreiða allmörg þingmál áður en þessu þingi lýkur og þá gerist það eins og svo oft áður og það skal viðurkennast, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur oft áður, að tekinn er drjúgur tími í að ræða hin margvíslegu þingmál, jafnvel þau sem mikil samstaða er um í þinginu. Menn beita og jafnvel misbeita þingsköpum undir liðnum andsvör, sem forseti Alþingis í eina tíð úr röðum Sjálfstæðisflokksins kallaði samherjaskjall og eru í raun og veru engin andsvör. Það er gert til að tefja tímann. Það er gert til að koma í veg fyrir að brýn mál komist á dagskrá en um leið og samkomulag næst (Gripið fram í.) þegar komið er inn á kvöldið eru menn teknir út af mælendskrá eins og ekkert sé og mál fljúga hér í gegn. Þetta er auðvitað bara leikrit (Gripið fram í: Nei.) sem öll þjóðin áttar sig á (Gripið fram í: Þetta er sam …) og sér og verður til þess að brýn mál komast ekki á dagskrá.

Verkefni okkar hér er að gera þjóðinni gagn en ekki þvælast fyrir (Gripið fram í: Forgangsraða verkefnum.) og það er það sem við þurfum að láta gerast. Með þessu áframhaldi er algerlega ljóst að ekki verður unnt að standa við áform starfsáætlunar um að ljúka hér störfum 15. mars.