141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Sigfús Karlsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með síðustu hv. þingmönnum sem hafa komið hér og talað um mottumars og skattamál, ég þyrfti töluvert lengri tíma til að fá að ausa úr mér.

Þannig er mál með vexti að ég er varaþingmaður og sit hér inni, eins og vinir mínir gera stundum grín að, ég mun sitja inni í viku og hlakkaði mikið til að takast á við þau verkefni sem væru á dagskrá í þessari viku um aðstoð við heimilin og fyrirtækin í landinu.

Þegar ég kom hingað í gær voru um 20 mál á dagskrá og það var nánast ekki neitt um heimilin í landinu. Í dag liggur dagskráin fyrir í 11 liðum og í þeim 10 liðum sem ég er búinn að fara í gegnum og eru hér á dagskrá er ekki neitt sem er fyrir okkur, um heimilin í landinu og til að bæta stöðu þeirra. Hvað er í gangi, frú forseti? Hvað ætlum við að gera hér þessa síðustu daga á þingi? Hér eru ótrúlegustu mál sem hafa ekkert með heimilin eða fyrirtækin í landinu að gera.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson minntist réttilega á skattamál áðan, sem var alveg hárrétt að gera. Og af því að ég kem úr þeim geira þá er það því miður bara orðið þannig — og ég held að þeir sérfræðingar sem voru á nefndarfundi hjá okkur áðan hafi rétt fyrir sér um það — að menn telja að skattar séu orðnir það háir í landinu að fólki finnist það réttlætanlegt að stinga undan skatti. Þetta er bara hræðileg staðreynd. (Gripið fram í.)