141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það var aumkunarvert að heyra í hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, talsmanni stóriðjunnar í landinu, stóriðjufyllirísins, (REÁ: En skurðstofurnar?) og ég vek athygli … (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsal.)

Forseti. Ég hef hér tvær mínútur og ég óska eftir því að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir leyfi mér að tala þær tvær mínútur og haldi sér til hlés á meðan.

Það eru að birtast mjög alvarlegar fréttir um afleiðingar stóriðjustefnunnar og Kárahnjúkavirkjunarframkvæmdanna vegna þess hvernig að þeim var staðið. Það var öllu til fórnað. Þessar fréttir núna um að lífríkið í Lagarfljóti sé á vonarvöl eiga ekki að þurfa að koma okkur á óvart, að það sé jafnvel að hverfa. Það á heldur ekki að koma okkur á óvart að bújarðir, lönd og menningarminjar við bakka Lagarfljóts séu að hverfa. Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að í 125 blaðsíðna skýrslu ráðuneytisins um úrskurð um framkvæmdirnar við Kárahnjúka kemur þetta allt saman berlega fram og það er beinlínis sagt að líklegt sé að svifaur í vatninu muni fjór- til fimmfaldast sem muni draga úr rými og takmarka og draga úr frumframleiðni þörunga og þetta geti haft áhrif á göngu fiska; bleikju, urriða, lax og hornsíla. Það er líka sagt að vatnsmagnið og rennslisaukningin verði til þess að það verði mikið landrof meðfram bökkum fljótsins.

En niðurstaða ráðuneytisins á þeim tíma var sú að heimila ætti hina fyrirhuguðu framkvæmd vegna þess þjóðhagslega ávinnings sem af henni hlytist og vegna ávinninganna fyrir atvinnu á Austurlandi. Hinn þjóðhagslegi ávinningur af þessari framkvæmd (Forseti hringir.) hefur reynst vera 3,5% arðsemi en ekki 13,5% og við erum hér að súpa seyðið af því að það var farið í þessa risaframkvæmd án þess að hafa varúðarsjónarmiðin í gildi, án þess að leyfa náttúrunni að njóta vafans. Og um leið og þessi (Forseti hringir.) úrskurður var kveðinn upp og framkvæmdin heimiluð var Landsvirkjun (Forseti hringir.) falið að fara í rannsóknir á níu tilteknum atriðum, m.a. svifaurnum og fokinu. (Gripið fram í.) Eftir á, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson. Það er gott að þú gerir athugasemdir, hv. þingmaður.