141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég verð að segja að eftir fund allsherjar- og menntamálanefndar í morgun er ég undrandi og líka frekar leið yfir þeim upplýsingum sem okkur bárust út af svonefndu FBI-máli, en ekki síður út af þeirri alvarlegu rannsókn sem lögreglan á Íslandi var með, og er enn, í rannsókn, þ.e. hugsanlegt brot gagnvart stjórnskipan landsins, dómstólum, Alþingi, forseta og framkvæmdarvaldi. Við spurðum þá sem sátu meðal annars fundi 25. ágúst 2011 hvað hefði komið fram á þessum fundum.

Í fyrsta lagi var alveg ótvírætt af hálfu lögreglunnar að það er tvímælalaust um sama málið að ræða, þ.e. ráðherra hafði hvorki heimild né forsendur til að trufla rannsókn íslensku lögreglunnar á máli sem meðal annars leiddi til rannsóknar í Bandaríkjunum. Ráðherra gat ekki gefið sér neinar nýjar forsendur.

Í öðru lagi, fyrst ráðherra var svona umhugað um að setja þyrfti fram nýja réttarbeiðni átti meðal annars ráðuneytið á grundvelli „cyber convention“ samkomulagsins að leita til bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Það gerði það ekki. Það segir manni það að ráðherra hafði þann eina ásetning að stoppa rannsókn íslensku lögreglunnar á þessu máli, a.m.k. grípa inn í.

Í þriðja lagi, þið munið hvernig bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. innanríkisráðherra komu inn í málið. Asinn var svo mikill að fara þurfti í burtu með FBI-mennina. Hvað kom fram á þessum fundi í ágúst þegar lögreglan spurði hvað FBI-mennirnir ættu að gera? Þá segir ráðherra: Þeir geta bara verið hérna áfram á landinu. Það er einmitt það, bara eins og túristar, og það skipti ekki máli við hverja þeir töluðu. Ráðherra hafði engan áhuga á að ýta mönnunum úr landi þótt alvarleikinn væri svona mikill. Ráðherra hafði bara áhuga á að stoppa málið.

Mörg mál halda áfram undir lok þingsins, önnur sofna. Þetta er mál sem má ekki sofna því að við erum orðin uppvís að inngripi pólitísks framkvæmdarvalds, (Forseti hringir.) að pólitískur ráðherra hefur með ásetningi gripið inn í sjálfstætt ákæruvald. Málið er grafalvarlegt. Þetta er mál sem (Forseti hringir.) verður að halda áfram á vegum þingsins, frú forseti.