141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[11:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þessar upplýsingar sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur með hérna eru mikið umhugsunarefni, sérstaklega í ljósi þess að látið hefur verið í veðri vaka að málum væri háttað með öðrum hætti en hún gerði hér grein fyrir. Ég er sammála henni um að þetta er mál sem þarf að halda á lífi og ræða betur.

Ég vildi annars taka til máls í þessari umræðu í tilefni af orðum nokkurra hv. þingmanna stjórnarflokkanna sem hér hafa kvartað yfir því að hægt gangi á síðustu dögum þingsins. Skýringin á því er fyrst og fremst sú að af hálfu ríkisstjórnarflokkanna hefur einhvern veginn skort á alla verkstjórn. Hér er fram á síðustu daga dælt inn í þingið stórum málum, almannatryggingafrumvarpi, heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafar, Lánasjóði íslenskra námsmanna, heildarendurskoðun, fyrir utan mál sem sannarlega eru brýn eins og gjaldeyrismálið á laugardaginn. Hér er fram á síðustu daga verið að dæla nýjum málum inn á þingið og á sama tíma er reynt að keyra áfram umdeildustu mál þingsins sem vitað er að mikil andstaða er við. Úr verður allsherjarumferðaröngþveiti í þingsölum af því að einstakir nefndarformenn, einstakir nefndarmenn, einstakir ráðherrar, eru hver um sig að reyna að troða áfram sínum málum. Það er hins vegar engin samræmd stefna um hvað á að setja í forgang og hvað ekki. Það er engin forgangsröðun, ekki nokkur einasta forgangsröðun.

Á síðustu dögum þings fyrir kosningar er fyrst og fremst skynsamlegt að reyna að klára fá brýn mál, fá afmörkuð vel undirbúin og brýn mál sem samstaða (Forseti hringir.) getur verið um. Umdeild mál hljóta eðli málsins samkvæmt að bíða þar til nýtt þing hefur verið kjörið innan fárra vikna.