141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

beiðni um skýrslu.

[11:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Undir þessum dagskrárlið vil ég koma nokkru á framfæri því að ráðherrar hafa ríka upplýsingaskyldu gagnvart þinginu. Nú hefur legið beiðni hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um að hann skili þinginu skýrslu vegna samdráttar á virðisaukaskatti af innlendum vörum og þjónustu. Samkvæmt 54. gr. þingskapa skal ráðherra ljúka skýrslugerðinni innan tíu vikna og skal skýrslan þá prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi.

Nú eru liðnar þessar tíu vikur og ekkert bólar á skýrslunni. Samkvæmt starfsáætlun þingsins á þinginu að ljúka á föstudaginn. Það er ólíðandi að ráðherrar geti komið sér undan lögbundinni upplýsingaskyldu við þingið með því að draga bæði skýrslubeiðnir og fyrirspurnir þar til þing verður rofið.

Ég fer því fram á það við virðulegan forseta að forseti og forsætisnefnd beiti sér fyrir því að þessari skýrslu verði komið til þingsins fyrir föstudag.