141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferðina á meðferð málsins milli 2. og 3. umr. í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Hér kom fram í 2. umr. og jafnframt 1. umr. að menn voru að reyna að átta sig á því og meta áhrifin á rekstur Ríkisútvarpsins, hvað það þýddi í raun að allur nefskatturinn eða útvarpsgjaldið rynni beint til stofnunarinnar. Í umsögn um frumvarpið voru um 870 millj. kr. Síðan kom það í ljós í meðförum nefndarinnar eftir 2. umr. að þær takmarkanir sem settar eru á auglýsingamarkaði þýða 360–400 millj. kr., en það sem var erfitt að átta sig á var það sem gerðist við breytingar í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd. Ég á sæti í hv. fjárlaganefnd og kynnti mér vel þær breytingartillögur sem voru gerðar við frumvarpið áður en fjárlagafrumvarpið var samþykkt. Þar kom fram 70 millj. kr. lækkun vegna færri lögaðila. Ég gat hins vegar ekki fundið þessar 190 milljónir sem mismunurinn var upp á og hefur komið fram að er, en þá er það vegna breytingar sem var gerð í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd í svokölluðum bandormi til að reyna að forðast vísitöluáhrifin á þær hækkanir sem þessu fylgja.

Ég hef talað fyrir því og það hefur verið stefna og vinna í hv. fjárlaganefnd að reyna að losna við svokallaðar markaðar tekjur úr ríkisbókhaldinu eins og hægt er. Mér fannst þetta eiginlega staðfesting á því að þetta væri frekari stoð undir þá skoðun mína og margra annarra hv. þingmanna að þetta væri enn frekar til að styrkja þá skoðun að Ríkisútvarpið ætti að vera á fjárlagalið í stað þess að það er verið að breyta því frá því að frumvarpið er lagt fram, alveg fram á síðustu sekúndu þingsins, (Forseti hringir.) og þá kemur efnahags- og viðskiptanefnd og leggur til 190 millj. kr. lækkun á þeim forsendum sem voru í upphafi.