141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Hann vekur athygli á því sem ég reifaði í máli mínu, að það kom fram á fundum okkar milli 2. og 3. umr. að tekjuáhrifin til hækkunar hjá Ríkisútvarpinu eru minni en gert var ráð fyrir í frumvarpinu og það er vegna þess að útvarpsgjaldið, einingaverðið, var lækkað milli umræðna, þ.e. frá frumvarpi og í meðförum þingsins. Útvarpsgjaldið er ekki 4.380 kr. á gjaldanda heldur 4.120 kr. Þarna munar 255 millj. kr. sem Ríkisútvarpið hefur þá minna úr að spila út af þeim ákvörðunum sem þingið hefur tekið.

Það er rétt að ekkert er svart eða hvítt í þessum heimi og vissulega getum við aldrei sagt að sjálfstæði Ríkisútvarpsins sé fullkomið, hvorki í faglegum né fjárhagslegum efnum. Við stígum ákveðið skref varðandi stjórnina til að auka fjarlægð hins pólitíska valds frá skipan í stjórnina með því að setja inn valnefnd þar sem þingið skipar þrjá fulltrúa af fimm. Breytingin er sú að fulltrúarnir skipa ekki lengur fulltrúana að öllu leyti og síðan er í frumvarpinu gengið út frá því að í framtíðinni verði það þannig að útvarpsgjaldið sem lagt er á gjaldendur í þessu landi í þeim tilgangi að standa undir almannaþjónustuhlutverki RÚV renni allt til RÚV. Vissulega stendur það eftir að á þinginu verður tekin ákvörðun um hversu hátt það er á hverjum tíma.

Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að þetta séu fullkomlega skýrar línur en það er viðleitni í þá átt að auka sjálfstæði, bæði í þessum fjárhagslegu og faglegu efnum, með þeirri leið sem farin er í frumvarpinu.