141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég sagði áðan að mér fyndist þetta renna frekari stoðum undir þá skoðun sem er í hv. fjárlaganefnd sem er þvert á flokka, og það er enginn ágreiningur um það. Það er hægt að nefna mörg dæmi og ég mun gera það í ræðu minni á eftir, dæmi sem eru sambærileg um það að koma viðkomandi stofnun undan hinum pólitísku áhrifum. Við erum öll sammála um mikilvægi þess að Ríkisútvarpið standi sjálfstætt og þurfi ekki að hafa áhyggjur, en það sem kemur fram í þessum meðförum og ruglaði okkur alveg fram í 3. umr. var annars vegar bara eðlileg leiðrétting sem átti sér stað í gegnum fjárlaganefnd, þ.e. þær 70 milljónir sem voru leiðréttar þar inni frá því að frumvarpið var lagt fram voru vegna þess að færri lögaðilar greiddu gjaldið. Það eru bara viðbrögð við staðreynd. Hins vegar er sú breyting sem gerð er í meðförum þingsins, eins og hv. þingmanni er jafnkunnugt um og mér, og kemur í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. að ákveðið er að falla frá hækkun á útvarpsgjaldi. Við vitum ástæðuna fyrir því, það var til að hlífa vísitölunni í lánum heimilanna og allt þetta. Við þekkjum þessa umræðu en það einhvern veginn staðfestist fyrir mér að þegar þingið tekur svona ákvarðanir, ef gjaldið á að renna allt til Ríkisútvarpsins held ég að þetta sé flóknara og erfiðara út frá rekstri fyrir forstöðumenn stofnunarinnar.

Menn ganga út frá því sem kemur fram í fjárlögum. Fjárlagafrumvarpið er lagt fram í september og síðan eru fjárlögin væntanlega samþykkt í desember og þá hafa menn tveimur og hálfum til þremur mánuðum skemmri tíma til að bregðast við niðurstöðunni í rekstrinum. Mín skoðun er klárlega sú að þetta sé staðfesting á mikilvægi þess að hafa Ríkisútvarpið (Forseti hringir.) á fjárlagalið.