141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þessa fyrirspurn. Varðandi fyrri spurninguna sem lýtur að mati á þjónustunni er það fjölmiðlanefnd sem hefur eftirlitshlutverk með öllum fjölmiðlamarkaðnum og skal leggja mat á það hvernig Ríkisútvarpinu gengur að uppfylla almannaþjónustuhlutverkið eins og það er skilgreint í lögunum.

Síðan er í 14. gr. kveðið á um það að gjaldskylda vegna útvarpsgjaldsins hvíli á þeim einstaklingum sem eru skattskyldir samkvæmt 1. gr. laga um tekjuskatt og sömuleiðis þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem sérstaklega eru undanþegnir skattskyldu samkvæmt 4. gr. sömu laga.