141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held þá að við hv. þingmaður séum með sama skilning á því að þeir sem hafa náð 16 ára aldri greiði þetta gjald. Ég er alls ekki að segja að ég ætli að vera á móti þessu frumvarpi eða þessu máli en ætla að leyfa mér að vekja athygli á því úr þessum ræðustóli að ef hjón eru til dæmis með tvö börn á þessum aldri greiða þau 72 þús. kr. í útvarpsgjald á því heimili. Fyrir marga eru það töluverðir fjármunir.

Ef þetta eru 18.800 kr. eða hvað þetta er á hvern einstakling mætti fullyrða að viðkomandi gæti notað það til dæmis í íþróttastarf eða eitthvert annað starf fyrir viðkomandi ungling. Þar af leiðandi held ég að það væri skynsamlegra að miða við 18 ára líkt og sjálfræðisaldurinn er. Menn tala um að fara með bílprófsaldurinn í 18 ár og einhverjir vilja fara með áfenga vökva í 18 ár líka þó að ég (ÞKG: Það má alveg skoða það.) setji spurningarmerki við það. Við förum yfir það síðar.

Það er almennt talað um þennan 18 ára aldur en ég geri mér grein fyrir að þarna er verið að vísa í hvenær menn eru skattlagðir. Þetta skiptir þó máli fyrir fjölskyldur sem eru með börn eða unglinga á þessum aldri. Þær munar um þessa peninga.