141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, að vissu leyti er það nýmæli. Þetta hefur verið sett fram í þjónustusamningi og það er rétt að draga fram að meiri hluti nefndarinnar undirstrikar mikilvægi þess að hlutur sjálfstæðra framleiðenda verði aukinn, og talar þar um 10%

Ég dró það sérstaklega fram í ræðu minni áðan að það skiptir máli að líta til þróunarinnar. Þróunin er einfaldlega of hæg. Í ljósi þess að þróunin hefur verið hæg og frumkvæði Ríkisútvarpsins í þessu máli hefur ekki verið nægjanlegt varðandi það að kaupa efni af sjálfstæðum innlendum framleiðendum er ég sannfærð um að þetta verði til þess að hrista aðeins betur upp í Ríkisútvarpinu og því ágæta fólki sem starfar þar, af því að innlend dagskrárgerð er einn af þeim þáttum sem fær okkur Íslendinga til að sameinast um Ríkisútvarpið.

Af hverju erum við með Ríkisútvarp? Mín röksemdafærsla fyrir því er að ég vil hafa öfluga fréttastofu, örugga fréttaþjónustu og síðan öfluga innlenda dagskrárgerð. Þannig sjáum við það og þannig sannfæri ég ekki bara mig heldur aðra um að við eigum að standa vörð um Ríkisútvarpið en við verðum líka að gera kröfur til þess og vera ófeimin við að gera það. Starfsmenn Ríkisútvarpsins eiga alls ekki að taka því óstinnt upp heldur miklu frekar jákvætt. Þeir sjá að með þessu viljum við Ríkisútvarpinu vel, við viljum að fólk sameinist um hlutverk þess.

Varðandi auglýsingaþáttinn — nei, ég er ekki hrædd við fákeppni og mér finnst það vera pínulítil klisja. Af því að það er alltaf einhver einn annar stór á markaðnum út af einhverri sögu þá er hann eitthvað ægilega hættulegur. Ég er ekki sammála því. 365 miðlar, Skjárinn eru á markaði en það sem ég dró sérstaklega fram er m.a. umsögn Blaðamannafélags Íslands þar sem segir að takmarka verði umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði til að aðrir miðlar fái þrifist. Ég dró sérstaklega fram að mesta fjölbreytnin í dag — og hún getur orðið meiri — er á sviði vefmiðlunar, frjálsrar fjölmiðlunar á netinu, (Forseti hringir.) á vefnum sem hefur stuðlað að því að við fáum nú fleiri og fjölbreyttari fréttir. Þeir miðlar hafa hins vegar takmarkaðan aðgang að auglýsingapottinum (Forseti hringir.) meðan Ríkisútvarpið er svona stórt á markaði.