141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Skúli Helgason, talsmaður okkar í málinu, segir að nefndin hafi valið á milli þessara tveggja póla. Það er rétt, nefndin valdi að Ríkisútvarpið kynnti framboðin og hefði ritstjórnarvald yfir því. Ég er ánægð með það og styð það en ég vil gera meira, ég vil fara hina leiðina, ég vil að leggja til að framboðin geti kynnt sig algerlega á eigin forsendum án ritstjórnarvalds RÚV og fái að gera það án þess að þurfa að borga fyrir það, sem sagt endurgjaldslaust. Það er hugsað til að hjálpa hinum minni framboðum eins og ég færði rök fyrir áðan.

Hv. þingmaður spyr, og það er mjög skynsamleg spurning, hvað flokkarnir eigi að fá margar mínútur. Ekkert er sagt um það hér en það er heldur ekkert sagt varðandi hina leiðina, að RÚV eigi að kynna framboðin og veita þeim tækifæri til þess að kynna sig með ritstjórnarvaldi sínu og er ekki er heldur talað um mínútur í því sambandi, þannig að það er eitthvað sem þarf að ræða, bæði innan RÚV og væntanlega innan stjórnmálaflokkanna hvað er við hæfi í því. Ég hef ekki kosið að nefna að flokkarnir eiga að fá hálftíma þriðja hvern dag eða eitthvað slíkt. Menn verða bara að koma sér saman um hvað er skynsamlegt í því og væntanlega verður eitthvert tog í því. RÚV mundi segja: Þið fáið frekar lítinn tíma, en flokkarnir mundu vilja segja: Við viljum meiri tíma. Það yrði að skoða á milli þessara aðila og menn mundu þá reyna að komast að skynsamlegri niðurstöðu í því.

Hins vegar vil ég fara sömu leið og farin er varðandi það sem nú stendur í breytingartillögum okkar sem nefndin flytur öll, að framboð sem er bara í framboði í einu kjördæmi fengi bara einn sjötta af tímanum. (Forseti hringir.) Það yrði bara í hlutfalli við hvað framboðið er víðtækt á landsvísu.