141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég spurði um tímann af því að í tillögunni stendur að Ríkisútvarpið eigi að veita öllum gildum framboðum til Alþingis jafnan útsendingartíma til að kynna stefnumál sín. Það þyrfti þá að breyta texta tillögunnar ef ætlun flutningsmanns er sú að það fari eftir því hvort framboðin eru í öllum kjördæmum eða ekki hversu langur tíminn á að vera.

Ég spurði líka um tímalengdina af því að það eru ekki nema rúmar sex vikur til kosninga og ef frumvarpið á að taka gildi núna þarf þetta að liggja fyrir því að það er ekki bara það að Ríkisútvarpið þurfi að opna þennan glugga og afhenda ókeypis auglýsingatíma heldur þurfa viðkomandi stjórnmálahreyfingar að framleiða þessar auglýsingar, þetta efni. Tíminn til stefnu er því mjög skammur. Ég veit að tillagan er lögð fram af mjög góðum hug, ég dreg það ekki í efa. Hv. þingmaður nefndi að þetta gæti verið mikilvægt til að veita nýjum framboðum sem hafa lítil fjárráð möguleika á að kynna stefnumál sín. En reyndin er hins vegar sú að ef tillagan yrði samþykkt tökum við, þingmenn og fulltrúar þeirra flokka sem sitja á Alþingi, ákvörðun um að okkar eigin flokkar fái ókeypis auglýsingatíma í Ríkisútvarpinu. Ég spyr: Eru ekki einhverjir hagsmunaárekstrar þar á ferðinni? Er það ekki að einhverju leyti þannig að við, kjörnir fulltrúar, séum að gera það að lagaskyldu að Ríkisútvarpið, fjölmiðill allra landsmanna, veiti okkar eigin stjórnmálaflokkum ókeypis auglýsingatíma?