141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það hvernig tillagan hljóðar, að ekki komi nógu skýrt fram í henni að framboð sem býður bara fram í einu kjördæmi fái aðeins einn sjötta af þeim tíma sem aðrir flokkar fá sem bjóða fram alls staðar, þá taldi ég, miðað við hvar þetta staflast upp tæknilega séð í lögunum, að þar ætti það sama við og stendur ofar í greininni varðandi þá leið sem nefndin sameinast um að fara varðandi ritstjórnarlegt vald RÚV yfir kynningunni. Þar kemur hlutfallshugsunin fram þannig að ég hélt að þetta væri í beinu framhaldi og að ekki þyrfti að tafsa á því líka í þessari grein. Ef það er misskilningur hjá mér þarf auðvitað að breyta tillögunni, en alla vega var það gert tæknilega á nefndasviðinu og þetta er hugsunin. Ekki er hugsunin að framboð sem býður bara fram í einu kjördæmi fái jafnmikinn tíma og framboð sem býður fram í öllum kjördæmum.

Varðandi það sjónarmið hvort þarna séu hagsmunaárekstrar er það alveg réttmætt sjónarmið. Ef flokkarnir á þingi samþykkja þessa tillögu skammta þeir sér ígildi peninga, þ.e. auglýsingatíma — ég hefði reyndar viljað kalla það kynningartíma af því að þetta eru ekki alveg beinar auglýsingar með sama móti og fyrirtækjaauglýsingar — þá er það alveg gilt sjónarmið, en þetta er gert í öðrum löndum. Einhvern veginn hafa þeir búið til það umhverfi í öðrum löndum, væntanlega þá með lögum. Vilja menn ná fram sjónarmiðunum um að skammta framboðum ókeypis tíma til að kynna sig eða ekki? Ég tel að rétt sé að gera það með hagsmuni þeirra sem eiga litla peninga í huga, þannig að ég tel þetta algerlega réttlætanlegt (Forseti hringir.) og tel mig ekki vera að gera eitthvað sem ekki þolir dagsins ljós í þessu sambandi.