141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir máli að upplýsa í þessu sambandi að algjör samstaða er í fjárlaganefnd um að hætta helst alveg með markaða tekjustofna. Þeir eru náttúrlega mjög óréttlátir og sumar ríkisstofnanir eru bara í allt annarri stöðu en aðrar, t.d. heilbrigðisstofnanirnar, þær eru ekki með neina markaða tekjustofna. Þær eru háðar því hvað fjárveitingavaldið gerir á hverjum tíma. Síðan eru stofnanir eins og Ríkisútvarpið, Fjármálaeftirlitið, Umferðarstofa og aðrar slíkar sem eru með markaða tekjustofna og jafnvel talað um að þær eigi þessar tekjur en það er auðvitað ekki þannig.

Það var upplýst í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að það væri algjör samstaða um að hverfa frá þessari braut því að það liggur náttúrlega fyrir að þessa fjármuni, í þessu tilfelli nærri 700 milljónir, er verið að nota í annað, hugsanlega í heilbrigðisstofnanir einhvers staðar á landinu, menntastofnanir eða annað.

Ef menn fara þá leið sem hér er lagt upp með þarf að taka þessa peninga einhvers staðar frá, það er alveg kýrskýrt. Hv. þingmaður fór yfir hvað þetta væri búið að taka langan tíma, búið að ræða málið mikið o.s.frv., og ég fer nánar yfir nokkra þætti málsins í minni ræðu. En ég spyr bara þessarar einnar spurningar, sérstaklega af því að það er búið að fara yfir þetta allt saman, spurningar sem ég hef spurt að allan tímann sem þetta mál hefur verið í umræðu: Hvaðan á að taka þessa peninga? Af hverju ætla menn að forgangsraða svona á þessum niðurskurðartímum og taka frá öðrum stofnunum ríkisins og setja í Ríkisútvarpið? Hvaðan ætla menn að taka þessa peninga?