141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:45]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í álitinu þar sem rætt er um umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og afkomu ríkissjóðs, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er miðað við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 en sé miðað við niðurstöður fjárlaga fyrir 2013 mun sú viðbótarupphæð sem rennur til Ríkisútvarpsins vegna breytinga á ráðstöfun útvarpsgjaldsins lækka í 610 millj. kr. ef frumvarpið verður að lögum. “

Þetta eru umtalsverðir fjármunir og það þarf auðvitað að færa þá til í fjárlagagerðinni en við þekkjum það að því verður ekki svarað nákvæmlega hér enda ráðum við því ekki hvernig þeim verður ráðstafað. Það er alltaf verkefni hvers árs í fjárlögum að ákveða slíka hluti, það er víða hægt að finna því stað og nefna dæmi. En þetta eru nú ekki svo stórbrotnir fjármunir að ég haldi að það verði mikið vandræðamál að forgangsraða þeim.

Nú erum við að samþykkja frumvörp, vinna með frumvörp sem eru ívilnanir vegna atvinnuuppbyggingar víða um land þannig að á nokkurra ára tímabili verði greiddir úr ríkissjóði 2, 3, 4, 5 milljarðar vegna þessara ívilnana o.s.frv. Við erum alltaf að ráðast í verkefni sem við teljum að skili samfélagslegum ábata þegar upp er staðið og það er alltaf verkefni hvers Alþingis að finna þá fjármuni og færa á milli og ákveða útgjöld þannig að því verður ekki svarað hér.

Ég vona að hv. þingmaður svari því vel í ræðunni á eftir hvort flutningsmenn hafi látið meta áhrifin, eins og ég nefndi áðan, af því að auka hlutdeild af innlendu efni keyptu af sjálfstæðum framleiðendum úr 6% í 20%. Það er aukning sem mundi hafa veruleg áhrif innanhúss hjá Ríkisútvarpinu, gengi hún eftir.