141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

lengd þingfundar.

[13:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er dæmalaust að starfa hér í þinginu eftir atburði gærdagsins þegar þessi raunverulega minnihlutastjórn marði í gegnum þingið meiri hluta við sig. [Hlátur í þingsal.] Það er annar þingmeirihluti fyrir utan þinghúsið. Þetta er einkennilegt í ljósi þess að verið er að boða næturfund í kvöld. Það er þriðjudagur og heimild í þingskapalögum gefur leyfi til þess að halda þingfund til miðnættis.

Hvað er um að vera, herra forseti? Hvers vegna er ekki hægt að fara eftir því sem stjórnarandstaðan hefur beðið um, að hér verði málum forgangsraðað þannig að þingmenn viti að hverju þeir ganga þegar þeir mæta til vinnu dag hvern? Dagskráin er eins og óskrifað blað, verið er að boða næturfund í kvöld, það er eldhúsdagur á morgun og áætluð þingslit á föstudaginn. Er hægt (Forseti hringir.) að koma skikki á þingstörfin, herra forseti?