141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég hefði beðið um andsvar við hv. þingmann, en ég ætla nú ekki að fara að deila við forseta um það. Nóg er nú deilt hér í þessum sal. (Gripið fram í: Af minna tilefni.) Af minna tilefni kannski já, en það kann að vera að það hafi líka verið óskýrt hjá þingmanninum að biðja um andsvarið. Hvað um það.

Það sem ég ætlaði að spyrja um, svo ég komi því á framfæri, var aukningin sem virðist vera og hv. þingmaður talaði um. Var hennar getið í fjárlögum? Ég náði ekki alveg fyrri hluta ræðu þingmannsins, en hvað um það.

Við ræðum hér í dag málefni Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, eins og stendur í heiti frumvarpsins. Hér er frumvarpið til 3. umr. og liggur frammi með breytingum eftir 2. umr. Svo eru tvær breytingartillögur frá minni hlutanum og nefndarálit frá meiri hlutanum með nokkrum breytingartillögum.

Í markmiðsgrein frumvarpsins kemur fram að markmið laganna sé að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni, svo eitthvað sé nefnt, og má skilja hversu mikilvæg stofnun Ríkisútvarpið er sem þjóðarmiðill.

Herra forseti. Ég kann alltaf betur við að ræða um Ríkisútvarpið sem Ríkisútvarpið, það er einhver lenska að tala um stofnunina sem RÚV eða RÚV ohf. Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að minna okkur á að þetta er stofnun og fjölmiðill í eigu almennings, eigu ríkisins, og ekkert að því að tala út frá því hreint og beint.

Í 2. gr. er fjallað um eignarhald og samning um fjölmiðlun í almannaþágu og ekki virðast vera neinar aðrar hugmyndir uppi en að Ríkisútvarpið sé áfram opinbert hlutafélag hjá þeim er leggja fram þetta mál og bera á því ábyrgð. Menn virðast vera orðnir sáttir við að það fyrirkomulag sé á stofnuninni.

Í II. kafla er farið yfir hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins. Þar er rætt um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og ýmis hlutverk og skyldur tíndar þar til í sjö liðum. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið skal sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að:“

Svo eru talin upp nokkur atriði er varða lýðræðishlutverkið og síðan varðandi menningarlegt hlutverk, þar á meðal að leggja rækt við íslenska tungu og svo framvegis.

Ég spurðist fyrir um það í andsvari við flutningsmann, hv. þm. Skúla Helgason, hverjir hefðu eftirlit með hlutleysi eða hlutlægri umfjöllun. Kom fram í máli þingmannsins að það væri fjölmiðlanefnd, held ég hún heiti frekar en fjölmiðlastofa. Ég velti líka fyrir mér hvort við séum á réttri leið og höfum verið undanfarin ár með að stjórn stofnunarinnar sé fyrst og fremst rekstrarstjórn. Ég er alls ekki að mælast til þess að bein pólitísk afskipti verði af stofnuninni, það held ég að væri algjört glapræði, en ábyrgðin virðist liggja og hefur verið bundin við fjármálahlutann eða rekstrarlega hlutann.

Að þessu sögðu ætla ég að vitna til þess sem Framsóknarflokkurinn ályktaði á flokksþingi sínu ekki alls fyrir löngu. Þar er talað um fjölmiðla sem mikilvæga upplýsingaveitu til almennings í lýðræðislegu samfélagi. Að sjálfsögðu er ábyrgð fjölmiðla mjög mikil og fjölmiðlamanna þar af leiðandi um leið, þar sem fjölmiðlarnir hafa gjarnan verið nefndir sem fjórða valdið í samfélaginu. Eðlilegt er að um þá gildi lög og reglur og að gerðar séu kröfur til þeirra líkt og til annarra sem fara með vald í samfélaginu, þar á meðal til Alþingis og alþingismanna.

Eftir flokksþingið er okkar mat að auka þurfi gegnsæi um útbreidda fjölmiðla þannig að eignarhald sé skýrt og komið sé í veg fyrir of mikla samþjöppun á markaðnum. Ég vil aðeins koma inn á stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég nefndi það í andsvari við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að ég hef ákveðnar efasemdir um að rétt sé að takmarka þátt Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði mikið meira en er í dag. Hugsanlega er hægt að segja reglur og eitthvað slíkt, en Ríkisútvarpið er ekki á auglýsingamarkaði þegar kemur að netmiðlum það er fyrst og fremst í útvarpi og sjónvarpi. Þar er að mínu viti töluvert mikil fákeppni á Íslandi í dag þannig að ég held það væri ekki endilega til góðs að Ríkisútvarpið færi út af slíkum markaði.

Ég ætla samt ekki að gera lítið úr þeim rökum að það kynni að verða til þess að einhverjir sprotar kviknuðu, en ég held að við höfum séð það í gegnum árin frá því að frelsi varð hér í fjölmiðlum að lenskan hefur verið sú að þeir miðlar sem hafa verið settir á fót safnast á fáar hendur. Auðvitað er það ekki algilt, ég vil taka það fram. Við erum með 365 sem eru býsna stórir og atkvæðamiklir á markaðnum, erum með Skjáinn og svo ÍNN sem er sjálfstæð sjónvarpsstöð og rekin fyrir auglýsingar. Svo eru náttúrlega útvarpsstöðvar eins og Útvarp Saga og fleiri að reyna að berjast í þessu. Ég er ekki endilega viss um að þeirra hagur batnaði við að Ríkisútvarpið færi út af markaðnum.

Ríkisútvarpið hefur að sjálfsögðu skyldum að gegna, eins og nefnt er hér í þessu frumvarpi, varðandi menningar- og lýðræðislegt hlutverk. Ef menn ætla að taka félagið eða stofnunina af auglýsingamarkaði eða minnka mikið hlutverk hennar verða menn að vera sáttir við að kostnaður verði greiddur af skattgreiðendum, eigi þessi stofnun að vera til áfram, sem ég held að hljóti að vera vilji flestra.

Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um aðra starfsemi Ríkisútvarpsins, meðal annars um dótturfélög og þess háttar. Verið er að tala um birtingar á viðskiptaboðum, þetta er nú reyndar svolítið sérstakt nafn finnst mér viðskiptaboðin, en allt í lagi, við verðum að venjast því líklega.

Það er talað um ýmislegt annað í þessu, meðal annars textun og táknmálstúlkun. Ég ætla að leyfa mér að fagna því að nú eigi að fara að texta fréttir, ef ég hef skilið þau skilaboð rétt, alla fréttatíma, í það minnsta aðalfréttatímann. Er það mjög mikið fagnaðarefni og mikilvægt til þess að Ríkisútvarpið standi undir þeim skyldum sem það hefur gagnvart öllum landsmönnum, þeim sem eiga erfitt og geta ekki heyrt þær fréttir sem verið er að flytja. Því er afar mikilvægt að þessi skilaboð, fréttirnar, séu textaðar. Auðvitað ætti að texta sem flest af efni sem þarna er birt.

Allt kostar þetta að sjálfsögðu fjármuni, rekstur Ríkisútvarpsins, eins og ég nefndi áðan. Ljóst þarf að vera hvernig menn ætla að greiða fyrir reksturinn ef auglýsingarnar eiga að fara út.

Framsóknarmenn ályktuðu á flokksþingi sínu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi með aðhaldi og hlutlægri umfjöllun um íslenskt samfélag. Á RÚV hvílir rík, lýðræðis- og samfélagsleg skylda og því ber að þjóna öllu landinu.“

Ég hygg að vilji þeirra sem stjórna og stýra hjá Ríkisútvarpinu sé að þjóna öllu landinu. Við getum haft ýmsar skoðanir á því hvernig til hefur tekist og hvernig afraksturinn er. Það eru áhugaverðir og mjög fínir þættir sem hafa sinnt landsbyggðinni, eins og þátturinn Landinn á Ríkisútvarpinu til dæmis. Síðan eru 365 miðlar eða Stöð 2 með svipaðan þátt. Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum að sinna öllu landinu. Ég sakna þess aðeins að ekki sé yfirgripsmeiri fréttaþjónusta af landsbyggðinni, af stöðum og fréttum. Það virðist vera svolítið undir fréttamönnum sjálfum komið hversu duglegir þeir eru að finna eða koma fréttum á framfæri. Eflaust er engin önnur leið til þess að sinna þessu, en spurning er hvort þurfi að auka þessa þjónustu á landsbyggðinni með einhverjum hætti.

Það er ekkert launungarmál að Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum árin staðið þétt á bak við Ríkisútvarpið og mun að sjálfsögðu gera það áfram. Við leyfum okkur líka að vera gagnrýnin á þá stofnun eins og allar aðrar. Mikilvægt er að Ríkisútvarpið fjalli um öll mál af hlutleysi og reyni að draga upp þær hliðar sem eru á öllum málum. Mér hefur stundum fundist vanta upp á það og ég hef svo sem gagnrýnt það hér úr þessum ræðustól, en ég tel líka ástæðu til þess að hæla stofnuninni þegar vel er gert. Í því aðhaldi sem verið hefur á ríkisstofnunum, þó eflaust fyndist sumum að Ríkisútvarpið hafi sloppið ágætlega, þá held ég að stofnunin hafi þurft að taka töluvert mikið á sig og gert ágætt úr því svigrúmi sem hún hefur. Ég vona því að menn geti sameinast um að reyna að styrkja Ríkisútvarpið og ganga á eftir því að það sinni því hlutverki sem því er ætlað.

Ekki er hægt að ætlast til þess að allir séu sammála um hvernig að þessum hlutum er staðið. Ég hef til dæmis efasemdir um að rétt sé að innheimta útvarpsgjaldið með þeim hætti sem gert er, þ.e. að miða við 16 ára aldur á heimili. Fólk munar um þessar upphæðir sem þarna eru og er nær að miða við 18 ára, sjálfræðisaldurinn, líkt og er í svo mörgu öðru. Þarna er miðað við þá sem greiða skatta. En svo eru svo sem líka tekjumörk, sem laga þetta nú allt saman.

Hér eru tvær breytingartillögur við frumvarpið, annars vegar frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur þingmanni Framsóknarflokksins sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Einnig skal Ríkisútvarpið veita öllum gildum framboðum til Alþingis jafnan útsendingartíma til að kynna stefnumál sín án endurgjalds.“

Ég held að mikilvægt sé í þeirri lýðræðisþróun sem verið hefur á Íslandi að menn bregðist við því með því að gera framboðunum, þeim aðilum sem fylla þau skilyrði, jafnt undir höfði þegar kemur að því að kynna stefnumál sín. Það er í samræmi við lýðræðislegt hlutverk Ríkisútvarpsins, en að sama skapi verðum við að sjálfsögðu að virða það stjórnsýlsuumboð sem stofnunin hefur þegar kemur að því að finna út úr þessu.

Hins vegar er breytingartillaga frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, um að minnst 20% af fjárveitingum til dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skuli varið til kaupa á innlendu efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Ég kann nú ekki alveg að segja hvort þetta er fullbratt farið miðað við hvað verið hefur, eða of stórt stökk, en ég held að hugsunin í tillögunni sé mjög góð, þ.e. að auka þátt innlendra aðila. Vera má að það þurfi að fara einhvern milliveg frá því sem nú er, hvort sem það er 6% eða 10%, ég man ekki alveg þá tölu. Í það minnsta þurfa menn að ræða hvernig hægt er að auka þennan hlut. Ríkisútvarpið hefur að sjálfsögðu keypt og framleitt mikið af innlendu efni. Ber því að sjálfsögðu að fagna og hefur það unnið til verðlauna fyrir sína dagskrárgerð sem er að sjálfsögðu mjög gott.

Þó er fagnaðarefni ef Ríkisútvarpið getur stutt enn frekar við þá aðila sem framleiða efni, hvort sem það eru útvarpsþættir eða sjónvarpsþættir. Það eykur mjög á flóruna bæði hjá þeim sem vinna við þetta og svo menningarlegum hliðum málsins. Þannig að ég (Forseti hringir.) hvet menn til þess að skoða tillöguna með opnum huga þó ég hafi ákveðnar efasemdir um töluna.