141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Alveg ljóst er að verði þetta frumvarp samþykkt miðað við forsendur fjárlaga fyrir árið 2013 munu útgjöld ríkissjóðs aukast um 610 millj. kr. Það liggur alveg fyrir. Þessi útgjöld rúmast ekki innan ríkisfjármálastefnunnar, það er alveg klárt líka. Þau útgjöld koma fram í hverju frumvarpinu á fætur öðru, upp á tugi milljarða kr. Það er ekkert smáræði inn á næsta kjörtímabil. Síðan sjáum við auðvitað hæstv. ráðherra baða sig í sviðsljósinu takandi skóflustungur, enda kallaði maður þetta skóflustunguáætlunina en ekki fjárfestingaráætlunina því það er annarra að greiða inn á næsta kjörtímabil.

Gagnrýni mín hefur snúið að því að mörkuðu tekjurnar renni ekki beint til ríkissjóðs. Alveg klárt og óumdeilt er að það skerðir fjárstjórnarvald Alþingis. Af hverju skyldi ég segja þetta? Vegna þess að í fjárlögunum til dæmis fyrir þetta ár eru í kringum 100 milljarðar kr. sem eru í mörkuðum tekjustofnum sem fara aðeins til hliðar við ákvörðun fjárveitingavaldsins, þó að tillit sé tekið til þess í fjárlögunum.

Dæmin sýna alltaf hið sama. Þegar tekjustofnarnir eru miklir í gegnum mörkuðu tekjurnar er útþensla á viðkomandi stofnunum. Síðan þegar mörkuðu tekjurnar dragast saman einhverra hluta vegna er viðkomandi stofnun ekki skorin niður með sama hætti. Skýrasta dæmið um þetta er Umferðarstofa. Í fjáraukalögum fyrir árið 2011 var 85 millj. kr. útgjaldaaukning til Umferðarstofu samþykkt vegna þess að mörkuðu tekjustofnarnir höfðu dregist svo saman. Hætt var að flytja inn bíla í jafnmiklu magni og eðlilegar skýringar á því. Það sem var merkilegt var að fjárveitingin af hálfu meiri hlutans í fjárlaganefnd var skilyrt við að sama tala yrði skorin niður árið 2012. Hún var samþykkt þannig á Alþingi, alveg skýrt. Það hefur aldrei verið gert.

Þess vegna stangast þetta á við (Forseti hringir.) fjárstjórnarvald Alþingis.