141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við 3. umr. málsins liggja fyrir annars vegar nefndarálit og breytingartillögur frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og hins vegar breytingartillögur frá einstökum nefndarmönnum. Ég verð að segja að ég batt ákveðnar vonir við það eftir 2. umr. að meiri breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu vegna þeirra athugasemda sem komu hér fram, bæði af minni hálfu og margra annarra sem tjáðu sig í þeirri umræðu.

Ég vil áður en lengra er haldið segja að ég tel að út af fyrir sig sé breytingartillaga hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um útsendingartíma fyrir framboð til að kynna stefnumál sín án endurgjalds góðra gjalda verð. Ég hef hins vegar ekki sterkar meiningar um það í sjálfu sér hvort kosningaumfjöllun Ríkisútvarpsins eigi endilega að vera með þeim hætti að flokkarnir hafi alveg sjálfdæmi um það hvernig það er gert, eða hvort það eigi að vera undir einhverri ritstýringu þeirra fréttamanna eða dagskrárgerðarmanna sem um það fjalla. Ég ætla því á þessu stigi ekki að taka afstöðu til tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að því leyti.

Ég vil hins vegar lýsa yfir stuðningi við breytingartillögu Þorgerðar K. Gunnarsdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um ákveðið lágmark sem verja eigi af fjárveitingum til dagskrárgerðar til að kaupa efni af sjálfstæðum framleiðendum. Ég held að það sé jákvætt. Nú hygg ég að Ríkisútvarpið almennt talað kaupi töluvert af sjálfstæðum framleiðendum. En ég held að ágætt sé að nefna ákveðið lágmark í þessu sambandi þannig að ljóst sé að viðskiptum verði ekki fyrst og fremst beint til dótturfélaga Ríkisútvarpsins, sem gert er ráð fyrir á öðrum stað í frumvarpinu að heimilt verði að stofna. Þannig að þeir sjálfstæðu aðilar sem starfa á þessum markaði, sem eru fjölmargir og faglega mjög góðir, eigi möguleika á viðskiptum við stofnunina sem hefur auðvitað mjög sterka stöðu á markaðnum hvað sem öðru líður.

Varðandi frumvarpið að öðru leyti sakna ég þess kannski helst í umfjöllun meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar að ekki skuli vera fjallað skýrar um almannaþjónustuhlutverkið. Almannaþjónustuhlutverkið og skilgreining þess var meginefni ræðu minnar við 2. umr., og kom reyndar mjög við sögu almennt í umræðum og síðan í umsögnum aðila, enda má segja að í því liggi dálítill kjarni þessa frumvarps og tilefni þess að það er flutt. Tilefnið er eins og við þekkjum athugasemdir og áhyggjur á vettvangi Eftirlitsstofnunar EFTA af því að Ríkisútvarpið skekki samkeppnisstöðu á markaði vegna þess hvernig fjármögnun þess er háttað, því að það er í þeirri stöðu að fá skatttekjur af sérstaklega mörkuðum skattstofni til ráðstöfunar en er á sama tíma í samkeppni við aðra aðila á auglýsingamarkaði. Það gerir að verkum að skoða þarf stöðu Ríkisútvarpsins frá samkeppnislegum forsendum. Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni er réttlætingin fyrir því að Ríkisútvarpið njóti forskots á aðra aðila á fjölmiðlamarkaði í tekjuöflun sú að það gegni mikilvægu almannaþjónustuhlutverki.

Ég nefndi í fyrri umræðu að mér þætti almannaþjónustuhlutverkið allt of vítt skilgreint miðað við frumvarpið. 3. gr. frumvarpsins, sem aðallega fjallar um almannaþjónustuhlutverkið og hin mismunandi verkefni Ríkisútvarpsins, nær til afskaplega margra þátta. Þegar maður les þennan lista sem er upp á tvær blaðsíður í frumvarpsformi er harla fátt sem undan er tekið. Með því sem hér stendur getur Ríkisútvarpið gert svo til hvað sem er á sviði fjölmiðlunar með vísan til almannaþjónustuhlutverks.

Þegar við förum yfir listann yfir öryggishlutverk Ríkisútvarpsins, hlutverk Ríkisútvarpsins sem lýðræðislegs vettvangs fyrir skoðanaskipti, menningarlegs hlutverks og þess háttar mætti helst ráða og halda — ef við læsum þetta frumvarp og ímynduðum okkur að hlutföllin í starfsemi Ríkisútvarpsins væru eitthvað í líkingu við listann sem hér er að finna — að til dæmis afþreyingarhlutverk Ríkisútvarpsins væri alveg hverfandi hluti af starfsemi þess. En ef við skoðum dagskrá þeirra stöðva sem Ríkisútvarpið hefur á sínum snærum er veruleikinn kannski annar. Ég leyfi mér því að segja að afþreyingarefnið, hlutur afþreyingarefnis í dagskrá Ríkisútvarpsins eða útvarpsstöðva og sjónvarpsstöðva Ríkisútvarpsins, er miklu fyrirferðarmeira en ráða má af þeirri lýsingu sem hér er að finna.

Í staðinn fyrir að afþreyingarefni sé eins og ráða má af þessum lista svona einn þáttur á móti 20 öðrum, ég held að 21 töluliður sé nefndur hérna eða fleiri, þeir eru nú ívið fleiri, varðandi hin mismunandi hlutverk Ríkisútvarpsins, og afþreyingarþátturinn er bara einn, þá er afþreyingarhluturinn miklu stærri en ráða má af því sem hér er að finna. Ég held að við þurfum ekki að deila um það.

Þess vegna gefur þetta ekki rétta mynd af starfsemi Ríkisútvarpsins eða þætti þess á fjölmiðlamarkaðnum. Við vitum að þrátt fyrir að aðrir fjölmiðlar bjóði vissulega upp á fleira en afþreyingarefni virðist samkeppnin ekki síst vera þar. Einkamiðlar sem eru reknir á viðskiptalegum forsendum reyna að ná til sín viðskiptum með afþreyingarefni í og með með því að leggja meiri áherslu á afþreyingarefni. Þar er Ríkisútvarpið í töluvert mikilli samkeppni við þá.

Ég mundi því segja að miðað við það að Ríkisútvarpið hefur öðru hlutverki að gegna en aðrir miðlar, hefur mikilvægu hlutverki að gegna sem öryggismiðill, sem lýðræðislegur vettvangur, fréttamiðill og hefur menningarlegt hlutverk, þá ætti Ríkisútvarpið að beina sjónum sínum frekar að þeim þáttum í meira mæli en afþreyingunni í minna mæli, láta einkaaðilunum það frekar eftir, láta þeim frekar eftir það svið.

Ég er þeirrar skoðunar að það, slík hlutföll eða slík áhersla á hið raunverulega almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins ætti að birtast með skýrari hætti í þessum texta.

Ég ítreka það sem ég nefndi í 2. umr. málsins að mér sýnist að dótturfélögum Ríkisútvarpsins séu settar harla litlar skorður í því frumvarpi sem hér um ræðir. Heimildin til að stofna dótturfélög um mismunandi þætti í starfseminni eru býsna víðtækar og það er býsna margt sem dótturfélög Ríkisútvarpsins geta gert. Ég tek fram, það er engin krafa um að dótturfélög geri neitt sem viðkemur almannaþjónustuhlutverki.

Mér finnst það líka mikið umhugsunarefni hversu opin heimild til stofnunar dótturfélaga er og hversu litlar hömlur eru á því hvað dótturfélögin geta gert. Mér finnst það veruleg spurning hvort gengið sé frá því í frumvarpinu með viðhlítandi hætti.

Nú vitum við að það hefur hent opinber fyrirtæki og opinberar stofnanir að teygja sig býsna langt í starfsemi sem er fyrir utan kjarnastarfsemi þeirra. Stundum lukkast það og stundum ekki, en í því felst auðvitað töluverð skekking á samkeppnisstöðu. Í verstu tilvikunum er um það að ræða að ráðist er í fjárfestingar og ráðist er í verkefni sem eru svo langt frá kjarnastarfsemi viðkomandi fyrirtækja eða stofnana að menn einfaldlega kunna ekki á viðkomandi svið og geta lent í vandræðum. Eru þekkt dæmi nær og fjær um það. Mér kemur alltaf í hug hin mikla útþensla Orkuveitu Reykjavíkur á árum áður sem færði sig út í fjöldamörg svið sem voru mjög langt frá kjarnastarfsemi þess fyrirtækis. Ég sé ekki — nú veit ég ekkert um áform forustumanna Ríkisútvarpsins og hef engar sérstakar áhyggjur af þeim sem þar sitja við völd núna hvað það varðar, en lögin að minnsta kosti setja engar sérstakar hömlur á þetta. Ég hefði haldið að með sama hætti og það þyrfti að skilgreina almannaþjónustuhlutverkið betur og taka skýrar fram að Ríkisútvarpið eigi aðallega að vera í raunverulegu almannaþjónustuhlutverki, miklu frekar en afþreyingarhlutverki, ætti að ganga tryggar frá því að dótturfélögin geti ekki farið út í svo til hvað sem er, að meiri hömlur séu á því hvað dótturfélögin geri.

Að lokum vil ég ítreka það sem ég kom reyndar inn á í örstuttu máli í 2. umr., þ.e. ákvæðin í 3. kafla sem varða stjórn og stjórnskipulag Ríkisútvarpsins. Það má alltaf deila um hvernig skipa á í stjórnir opinberra stofnana, en ég fer ekki ofan af því að sú leið sem hér er valin er afskaplega mikil flækjuleið. Verið er að fara mjög flókna leið að því marki að velja í stjórnina. Eins og hv. þingmenn muna er gert ráð fyrir að stjórnin sé sjö manna. Ráðherra skipi einn án tilnefningar, starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn, síðan séu fimm til viðbótar valdir af svokallaðri valnefnd sem starfa á í tvö ár í senn, en væntanlega á hún að skipa í stjórnina eða tilnefna í stjórnina árlega. Til að velja í þá valnefnd er sett upp svolítið flókið kerfi. Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis á að tilnefna þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara, Bandalag íslenskra listamanna á að tilnefna einn og annan til vara og samstarfsnefnd háskólastigsins á að tilnefna einn fulltrúa og annan til vara.

Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvort menn séu ekki að flækja hlutina töluvert mikið fyrir sér með því að gera þetta á tveggja ára fresti til að skipa í stjórn Ríkisútvarpsins til eins árs.

Ég geri líka athugasemdir við það að þingnefnd hafi það hlutverk sem hér um ræðir. Ég hef áður bent á það í umræðum að þegar þingið velur menn til setu í ráðum eða nefndum eða embættum, þá kýs þingið, þá er kosið á þingi. Þá er það þannig að í þessum sal eru greidd atkvæði. Oftast nær er það nú reyndar svo að þeir sem kosnir eru, ef það eru fleiri en einn eða ef það er stærri hópur, þá endurspeglar það með einhverjum hætti hlutföll hér á þinginu. En ég verð að segja að mér finnst sú hugmynd með aðkomu allsherjar- og menntamálanefndar mjög einkennileg og geri miklar athugasemdir við hana.

Ég segi, af hverju er það þá ekki bara þannig að Alþingi kjósi þessa valnefnd, alla þessa valnefnd, eða kjósi stjórn Ríkisútvarpsins, eins og gert er í dag? Ég held að það sé í rauninni miklu hreinlegra að ganga þannig frá því og mun eindregið mæla með því að slík leið verði skoðuð.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég geta þess að ég hef ekki haft tök á í þessari ræðu að ræða um fjármögnun starfsemi Ríkisútvarpsins, en ég mun þó koma inn á það síðar í þessari umræðu. Ég vísa til þess að það fyrirkomulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir og raunar það fyrirkomulag sem í gildi er er þess eðlis að ég teldi að það þyrfti miklu meiri uppstokkun (Forseti hringir.) en er að finna í frumvarpinu.