141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:46]
Horfa

Sigfús Karlsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að vita til þess að hv. þingmaður muni ekki missa svefn út af þessari breytingartillögu. Það sem um ræðir í þessu máli er útsendingartíminn. Hér er ekki beinlínis um að ræða framleiðslu á efni til kynningar, enda er það allt annars eðlis að mínu mati. Ég hygg að vísu að jafn útsendingartími til allra framboða yrði kannski til þess að æra óstöðugan við þessar kosningar þegar 20 framboð hafa nánast kynnt um að þau ætli að bjóða fram til Alþingis.

Hitt er aftur annað mál sem hefur mikið verið gagnrýnt í gegnum tíðina, að ný, smærri framboð eiga jafnvel mjög erfitt með að keppa við rótgrónu fjórflokkana, sem alltaf hefur verið talað um í neikvæðum tón af smærri framboðum. Þau hafi ekki sömu möguleika til útsendingartíma af því að fjórflokkarnir kaupa sér jafnvel allan réttinn.

Mér finnst breytingartillagan fullkomlega eiga rétt á sér og ég styð hana heils hugar því að það er mjög mikilvægt að hvert framboð fái réttmæta umfjöllun eða réttara sagt geti notað tíma sinn til að fjalla um stefnumál sín.

Svo er aftur spurningin um það hversu mikið áhorf verður á viðkomandi útsendingu. Hins vegar lét þingmaðurinn (Forseti hringir.) ósvarað þeirri spurningu hver stefna Sjálfstæðisflokksins væri í þessu máli.