141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé umræða sem er alveg þess virði að taka og mér finnst hún kannski hafa legið svolítið í láginni. Ég neita því ekki að ég harmaði mjög þegar Ríkisútvarpið tók ákvörðun um að afnema þær svæðisstöðvar sem voru á Ísafirði, Egilsstöðum, Akureyri og ef til vill víðar, sem að mínu mati voru mjög mikilvægur vettvangur. Þær voru líka auglýsingavettvangur og þá kemur auðvitað inn á umræðuna um hlutverk Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði að öðru leyti sem ég mun koma inn á í ræðu minni á eftir.

Við skilgreinum Ríkisútvarpið, og ég vil ekki tala um RÚV, sem fjölmiðil í almannaþágu. Þegar við tölum um almannaþágu hljótum við að vera að vísa til alls landsins. Ég ítreka að ég ætla ekki að fara að vaða inn í ritstjórnarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins en það breytir því ekki að um leið og við höfum svona hátimbraða skilgreiningu á einni stofnun, sem gegnir meðal annars mjög mikilvægu hlutverki í fréttalegum tilgangi, hljótum við að gera sérstakar kröfur til slíkrar stofnunar.

Það sem hefur hins vegar verið að gerast í fjölmiðlum úti á landsbyggðinni er auðvitað um margt áhugavert. Í fyrsta lagi höfum við séð héraðsfréttablöð spretta upp á síðustu áratugum sem að mörgu leyti leystu af hólmi gömlu stjórnmálablöðin sem voru gefin út og ég var til dæmis ritstjóri fyrir einu slíku árum saman. Það má segja að við pólitísku útgefendurnir höfum svolítið misst fótanna þegar héraðsfréttablöðin komu fram og það var út af fyrir sig fín þróun. Þá byrjaði miðlun frétta af landsbyggðinni með þessum hætti.

Síðan hefur margt breyst, samkeppnin, mikill aðgangur að alls konar upplýsingum og nú síðast netið. Við sjáum að héraðsfréttablöðin hafa mörg hver verið með mjög fínar útgáfur á netinu sem er ómissandi fyrir alla þá sem vilja fylgjast með, til að mynda á Vesturlandi, Vestfjörðum eða Norðurlandi vestra eða alls staðar þar sem ég fylgist minna með. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ekki væri ráð fyrir Ríkisútvarpið að taka upp samstarf við þá aðila, fela þeim einhvers konar verktöku, að annast fyrir sig fréttaflutning eða miðlun upplýsinga og frétta til Ríkisútvarpsins vegna (Forseti hringir.) skilgreiningar þeirra sem fjölmiðils í almannaþágu. Þannig gætum við um leið stutt við þá almennu fréttaöflun sem er verið að gera og framkvæma, kannski oft við erfiðar aðstæður og erfiðar fjárhagslegar aðstæður.