141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held það sé rétt hjá hv. þingmanni að mikilvægt sé að ræða þetta og ég held að því sé verulega ábótavant. Hv. þingmaður kom inn á svæðisstöðvarnar og ég tek undir það með hv. þingmanni að það var mjög miður þegar ákveðið var að draga úr vægi þeirra, bæði hvað varðar auglýsingatekjur og eins hvað varðar fréttaefni sem barst af dreifðu byggðunum. Það er oft svo með svæðismiðstöðvarnar, rétt eins og héraðsfréttablöðin sem segja fréttir af hinum dreifðu byggðum, að fréttin verður fyrst til þar vegna þess að einhver á svæðinu sinnir viðkomandi málaflokki, fer ofan í hann, kafar ofan í hann, fjallar um hann og þaðan ratar fréttin síðan í landsfjölmiðlana.

Það sem manni finnst hafa gerst hjá Ríkisútvarpinu í allt of miklum mæli er að þeir hafa tapað þeirri tengingu. Þeir ná ekki upplýsingunum, fréttunum utan af landi, af sömu dýpt og áður var þegar svæðisstöðvarnar voru við lýði. Sá vandi sem héraðsfréttablöðin standa frammi fyrir er líka áhyggjuefni. Héraðsfréttablöð í áskrift, sem hafa kafað ofan í málin af sömu dýpt og svæðisstöðvarnar gerðu áður fyrr, eiga í gríðarlegum vanda vegna mikilla hækkana á póstburðargjöldum í þeim flokki sem er ekki á fríblöðunum, sem kafa kannski ekki af alveg af sömu dýpt í málin þótt með undantekningum sé, en viðurkennt er að tekjugrunnurinn kemur að miklu leyti frá áskriftinni.

Þá fer maður að velta því fyrir sér hvernig verður þegar þau eru farin, þegar svæðisstöðvarnar eru farnar og þegar héraðsfréttablöðin veikjast, hvernig Ríkisútvarpið ætlar að ná djúpri tengingu við ákveðin svæði þar sem margir jákvæðir hlutir eru vissulega að gerast. Það hlýtur að vera eitthvað sem fjölmiðill okkar í almannaþágu þarf að skoða mjög gaumgæfilega og þeir stjórnendur sem þar eru, (Forseti hringir.) hvernig eigi að ná því. Það er ekki það sama að segja yfirborðslega fréttir af ákveðnum svæðum eða kafa djúpt ofan í málin og fjalla um þau á ítarlegan og öflugan hátt.