141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stórt orð Hákot, var einu sinni sagt, og fjölmiðill í almannaþágu eru stór orð. Við þurfum auðvitað að velta mjög fyrir okkur hvað það þýðir í rauninni. Ég tek undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur nokkrum sinnum nefnt í umræðunni og er að í frumvarpinu er það hlutverk útvarpsins ekki nægilega afmarkað eða skilgreint. Við sjáum að það er býsna víðtækt og spannar mjög mikið svið og það er einhvern veginn svarið við hugmyndinni um Ríkisútvarp í almannaþágu.

Við höfum aðeins verið að ræða útvarpið og hvernig það sinnir hlutverki sínu með tilliti til þess sem er að gerast utan höfuðborgarsvæðisins. Ég veit að sú umræða fer mjög í taugarnar á mörgum sem hlusta á okkur suma hverja nöldra yfir því og ég hef séð frekar önug viðbrögð koma frá Ríkisútvarpinu þegar málið hefur verið fært í tal. Það breytir því ekki að upplifun fólks utan höfuðborgarsvæðisins er sú að Ríkisútvarpið, og eftir atvikum margir aðrir fjölmiðlar, hafi mjög lítinn áhuga á því sem er að gerast utan höfuðborgarsvæðisins. Ég tel að í því felist mikil áskorun fyrir þá stofnun, sem ég hygg að sé sátt um að reka í einhverri mynd, í almannaþágunni að bregðast við svona gagnrýni með jákvæðum hætti, reyna að mæta henni, reyna að svara gagnrýninni þannig að hluti landsmanna upplifi ekki að þetta sé ekki ríkisútvarp í þeim skilningi hugtaksins að það nái til alls ríkisins.

Í því felst heilmikil áskorun og ég er þeirrar skoðunar að útvarpið verði að svara því kalli því að Ríkisútvarpið hefur miklar skyldur sem lúta að fjölbreytni. Við vitum að fjölmiðlarnir hafa tilhneigingu til ákveðinnar einsleitni en almannaútvarpið, „Public Radio“, eins og það er kallað á enskri tungu, hefur nákvæmlega (Forseti hringir.) það hlutverk að auka fjölbreytni.