141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að við nefndum svæðisútvarpið í umræðunni áðan munum við að þegar var verið að setja svæðisútvarpsstöðvarnar á laggirnar var það gert með ákveðnu markmiði. Þeim var ætlað að búa til aukavídd í starfsemi Ríkisútvarpsins sem átti sérstaklega að sinna tilteknum svæðum til að auka fjölbreytni í starfsemi Ríkisútvarpsins. Það er ekki síst það hugtak sem mér finnst skipta öllu máli í því sambandi. Það fer í taugarnar á sumum að við séum að setja einhvern landsbyggðarsvip á útvarpið með sérstökum hætti en krafan hlýtur að vera sú að Ríkisútvarpið sinni hlutverki sínu sem almannaútvarp með því að vera fjölbreytt og takast á við verkefni sem markaðurinn sinnir ekki. Það gerir það að mörgu leyti í gegnum Rás 1, þar eru margir prýðilegir hlutir gerðir, eins og svo sem líka á Rás 2 en Rás 1 hefur ákveðna sérstöðu og er mjög áhugaverð.

Það sem eftir stendur er að á sínum tíma voru svæðisútvarpsstöðvarnar settar á laggirnar til skapa aukna fjölbreytni, til að varpa ljósi á hluti sem höfðu ekki verið lýstir upp áður, þ.e. fréttaflutning af landsbyggðinni. Síðan er tekin ákvörðun um, og hún er studd fjárhagslegum rökum, að leggja niður svæðisútvarpið og þá er sagt: Við ætlum að sinna því öðruvísi. Hvernig hefur það verið gert? Ég hef ekki lagst í rannsóknir á því en upplifun okkar flestra sem búum á landsbyggðinni er að því hlutverki Ríkisútvarpsins sem það skilgreindi á sínum tíma í tengslum við svæðisstöðvarnar sé ekki sinnt jafnvel og áður. Það getur vel verið að Ríkisútvarpið telji það ekki það veigamikið að það skipti öllu máli en ég er ekki viss um að ýmsir íbúar á landsbyggðinni séu endilega sammála því. Þess vegna finnst mér að Ríkisútvarpið, kannski með nýrri tækni, nýjum aðferðum, nýrri aðferðafræði, geti sinnt því hlutverki sínu þótt það sé ekki með svæðisstöðvar, en það verður þá auðvitað að sýna okkur fram á að það sé (Forseti hringir.) þeim vanda sínum vaxið.