141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér grunntóninum í umræðunni sem hefur átt sér stað um hvernig við viljum sjá Ríkisútvarpið. Þegar við lesum skilgreiningarnar er það alveg rétt sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur bent okkur á og er að þegar við lesum skilgreiningarnar vaknar eiginlega frekar spurningin um hvað Ríkisútvarpið eigi eiginlega ekki að gera vegna þess að því er ætlað gríðarlega fjölþætt og mikilvægt hlutverk.

Mér finnst einhvern veginn að ákallið í umræðunni sé um tvennt. Annars vegar að Ríkisútvarpið tryggi fjölbreytni, og þá er ég ekki bara að tala um fjölbreytni sem lýtur að umræðunni um þjóðmál og slíka hluti heldur líka fjölbreytni á mörgum öðrum sviðum, tryggi fjölbreytileika í tónlistarframboði, fjölbreytileika í íslenskri þáttagerð, fjölbreytileika í efnistökum að öðru leyti, fjölbreytileika eins og hv. þingmaður nefndi varðandi íslenskt mál o.s.frv., en hafi hins vegar líka ákveðna sérstöðu. Sérstaðan og fjölbreytileikinn í því sambandi eru alls ekki mótsagnakennd hugtök, þau eru eiginlega angi af hinu sama.

Ef Ríkisútvarpið hefur ekki sinnt kröfunni um fjölbreytileika hefur það heldur ekki sinnt kröfunni um sérstöðu sína vegna þess að Ríkisútvarpið hefur auðvitað sérstöðu. Því er ætlað að fá sérstakar tekjur í gegnum tiltekinn skatt sem er búið að ákveða með lögum og í því felst auðvitað tiltekin krafa á útvarpið um að sinna hlutum sem aðrir aðilar geta ekki gert. Það þekkjum við líka úr umræðum frá öðrum löndum um það sem menn kalla þar „Public Radio“ eða „Public TV“, eða almannaútvarp, stofnun í almannaþjónustu. Það er vandasamt og leggur miklar kröfur á Ríkisútvarpið. Ákallið til dæmis um að sinna landsbyggðinni betur er ákall um að Ríkisútvarpið sýni sérstöðu og tryggi um leið fjölbreytileika. Það er hugtakið sem ég tel að við eigum að leggja til grundvallar (Forseti hringir.) þegar við veltum fyrir okkur hvernig Ríkisútvarpið eigi að sinna landsbyggðinni, eins og auðvitað öðrum hlutum landsins.