141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:11]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst mjög athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem er 8. þm. Reykjavíkurkjördæmis en verður væntanlega þingmaður Norðausturkjördæmis eftir næstu alþingiskosningar. Það mátti heyra það örlítið á tóninum í ræðu hv. þingmanns en ég er hjartanlega sammála því sem hann sagði þegar hann vék að starfsstöðvum Ríkisútvarpsins úti á landi.

Ég tel að það hafi verið mjög miður, verið gríðarleg afturför og sýnt hálfgerðan aumingjaskap þegar starfsstöðvarnar voru lagðar niður á Akureyri, á Egilsstöðum og á Ísafirði. Þær gegndu miklu hlutverki, bæði samfélagslegu hlutverki fyrir nærumhverfi sitt og einnig fyrir landið í heild.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að draga hefði átt fram í lagasetningunni að Ríkisútvarpinu bæri skylda til að reka útvarpsstöðvar og skilgreindar þjónustustöðvar, starfsstöðvar, þótt þær væru ekki nema að lágmarki þrjár utan höfuðborgarsvæðisins. Það er svo að standi það ekki klárt og undirstrikað í lögum, eins og varðandi starfsstöðvar opinberra stofnana, þá er það það fyrsta sem er skorið niður hafi þær verið settar upp. Þær eiga sér fáa málsverjendur nema þegar góðir hv. þingmenn eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem ætlar að fara í Norðausturkjördæmið, átta sig á því — og hann hefur náttúrlega vitað það fyrr — að búið er að loka starfsstöðinni á Akureyri og á Egilsstöðum og sjálfstæðu útvarpi þaðan. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég vil draga það fram aftur og spyrja hv. þingmann hvort starfsstöðvarnar eigi ekki að vera bundnar í lög.