141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Þegar sett voru lög um fjölmiðla, nr. 38/2011, var samhliða umræða um það af hverju lög um Ríkisútvarpið væru ekki inni í fjölmiðlalögunum. En menn ákváðu þá að fram þyrftu að koma sérlög um Ríkisútvarpið.

Nú er það þannig að sérlög ganga lengra en almenn lög þannig að ýmislegt í þessu frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið gengur lengra eða ver Ríkisútvarpið miðað við lög um fjölmiðla, nr. 38/2011.

Ég ætla aðeins að gera að umtalsefni 17. gr. frumvarpsins sem fjallar um stjórnvaldssektir. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Fjölmiðlanefnd getur lagt stjórnvaldssektir á Ríkisútvarpið sé brotið gegn ákvæðum 7. gr. um viðskiptaboð.“

Þar sem sérlögin ganga lengra en önnur lög og þar með lög um fjölmiðla er eingöngu hægt að beita Ríkisútvarpið stjórnvaldssektum vegna brota á 7. gr. frumvarpsins sem hér er til umræðu. Ef litið er til fjölmiðlalaga getur fjölmiðlanefnd lagt stjórnvaldssektir á aðra fjölmiðla samkvæmt æðimörgum greinum. Í 54. gr. fjölmiðlalaga segir að fjölmiðlanefnd geti lagt stjórnvaldssektir á lögaðila, sem eru þá eigendur fjölmiðlaveitunnar, sé brotið gegn vissum ákvæðum sem eru tíunduð þar. Það er því miklu strangara hvernig fjölmiðlanefnd getur starfað gagnvart öðrum fjölmiðlum í landinu en gagnvart Ríkisútvarpinu vegna þess að eingöngu er hægt að leggja stjórnvaldssektir á Ríkisútvarpið vegna brota á 7. gr. frumvarpsins. Á aðra fjölmiðla, hvort heldur það eru ljósvakafjölmiðlar eða aðrir fjölmiðlar, er hægt að leggja sektir á miklu víðtækari hátt en Ríkisútvarpið nokkurn tíma stendur frammi fyrir, meðal annars af því að sérlögin ganga lengra og þetta er sérstaklega tekið fram í frumvarpinu.

Það verður að segjast eins og er að það vekur furðu að gengið skuli svo miklu skemur gagnvart Ríkisútvarpinu en öðrum fjölmiðlum. Það er að minnsta kosti minn skilningur að sérlögin gangi lengra. Þegar talað er sérstaklega um stjórnvaldssektir í frumvarpinu sem hægt er að beita Ríkisútvarpið er það eingöngu hvað varðar brot á 7. gr. þess.

Það stendur jafnframt í 17. gr., og það er samhljóða lögum um fjölmiðla, að sektin geti numið allt að 10 millj. kr. Við ákvörðun sektar skal meðal annars tekið tillit til alvarleika brots og tekna Ríkisútvarpsins af broti þegar það á við. Áfram segir í 17. gr. að um rannsókn og meðferð mála samkvæmt þessari grein fari eftir viðeigandi ákvæðum laga um fjölmiðla, nr. 38/2011.

Það er því samhljóða að um er að ræða 10 millj. kr. sekt. Síðan stendur með leyfi forseta, í 17. gr. frumvarpsins um stjórnvaldssektir: „Falla má frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða af öðrum ástæðum er ekki talin þörf á beitingu sekta.“

Þetta er samhljóða því sem kemur fram í 54. gr. fjölmiðlalaga, nr. 38/2011, um stjórnvaldssektir. Í þeirri grein segir einnig að Póst- og fjarskiptastofnun leggi stjórnvaldssektir á þá sem brjóta gegn ákvæðum um flutningsrétt. Það nær ekki til Ríkisútvarpsins.

Ég vil einnig nefna að í 17. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Falla má frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða af öðrum ástæðum er ekki talin þörf á beitingu sekta. Í slíku tilviki er fjölmiðlanefnd heimilt að ljúka málsmeðferð með útgáfu álits sem birt er á heimasíðu hennar.“

Þar með lýkur 17. gr. um stjórnvaldssektir er varða Ríkisútvarpið. Það segir hins vegar í 54. gr. fjölmiðlalaga varðandi aðra fjölmiðla en Ríkisútvarpið að fjölmiðlanefnd sé heimilt að mæla fyrir um birtingu ákvörðunar að hluta til eða í heild og skuli birtingin fara fram með þeim hætti og í þeim mæli sem sanngjarnt megi teljast. Hinn brotlegi skuli annast og kosta birtinguna.

Ég sé að hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar er í salnum og mig langar að biðja hann um að íhuga þetta og skoða með mér og koma í andsvar við mig um þetta atriði. Minn skilningur er sá að sérlögin gangi lengra og þó að í frumvarpinu standi að fara eigi með rannsókn og meðferð mála samkvæmt lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, er eingöngu hægt að beita stjórnvaldssektum á Ríkisútvarpið ef brotið er gegn 7. gr sem tekur til viðskiptaboða. Það er því ýmislegt annað sem aðrir fjölmiðlar þurfa að gæta sín á, ef við getum orðað það svo, og vera beittir stjórnvaldssektum ef þeir fara ekki að þeim lögum og reglum.

Það er líka annað sem ég velti fyrir mér, en ég sit ekki í allsherjar- og menntamálanefnd og hef ekki getað spurt þessara spurninga þar, það er ágætt að gera það á lokasprettinum. Í fyrrgreindum lögum um fjölmiðla frá 2011 er í 55. gr. fjallað um fullnustu ákvarðana fjölmiðlanefndar, í 56. gr. um refsingar og síðan í 57. gr. um kærumál til lögreglu. Væntanlega eiga þessar greinar um fullnustu ákvarðana fjölmiðlanefndar og þar af leiðandi refsingar við um Ríkisútvarpið einnig þar sem ekki er neitt tilgreint um þetta í frumvarpi til laga, sérlaga, um Ríkisútvarpið, hvorki um fullnustu né refsingar. En samt, virðulegur forseti, segir í 17. gr. að um rannsókn og meðferð mála samkvæmt þeirri grein fari eftir viðeigandi ákvæðum laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Ég velti fyrir mér hvort það sem átt er við um meðferð mála í 17. gr. sé það sem rætt er um í 55. gr. um fullnustu og refsingar og taki þá til þessara tveggja greina, 55. gr. og 56. gr., í lögum um fjölmiðla. Það væri ágætt ef hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Björgvin G. Sigurðsson kæmi og svaraði þessu.

Þetta eru þættir sem mér finnst ástæða til að menn íhugi. Það þarf að skýra betur af hverju eingöngu er hægt að beita Ríkisútvarpið stjórnvaldssektum vegna brota á 7. gr. en hægt er að beita aðra ljósvakamiðla og fjölmiðla stjórnvaldssektum vegna miklu fleiri ákvæða en taka til viðskiptaboða. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að minn skilningur er sá að sérlög um stjórnvaldssektir eins og hér kemur fram að eigi að gilda um Ríkisútvarpið gangi lengra en almenn lög.

Það er annað sem ég ræddi í það minnsta í 2. umr. og á dálítið erfitt með að sætta mig við. Það er 12. gr. frumvarpsins um réttindi og skyldur starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna. Ég er ekki sátt við að það skuli þurfa að binda í lög um stofnunina Ríkisútvarpið að útvarpsstjóri í samráði við starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins setji starfsreglur fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn og setji jafnframt skilyrði áminningar og starfsloka. Síðan stendur í 12. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta: „Þar skal m.a. kveðið á um að málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri starfsmanns. “

Mér finnst afar sérstakt að hér skuli eiga að binda í lög um stofnunina sjálfa með þessum hætti hvernig útvarpsstjóri, sem er starfsmaður Ríkisútvarpsins, eigi í samráði við starfsmannafélög að setja starfsreglur um ákveðinn hóp starfsmanna Ríkisútvarpsins en á aðra hópa er ekki minnst. Mér finnst bara ekki við hæfi að slík grein sé í lögum um Ríkisútvarpið sjálft, fjölmiðil í almannaþágu. Starfsmannareglur sem og kjör starfsmanna og annað þess háttar fara eftir öðrum leiðum og reglum. Það er mjög sérstakt að ætla að binda þetta í lög, sérstaklega hvað varðar tvo hópa starfsmanna innan Ríkisútvarpsins.

Þegar rætt var um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið á síðasta þingi, sem ekki náði fram að ganga, sat ég í allsherjar- og menntamálanefnd og gerði athugasemdir við einmitt þennan þátt og ég ítreka þær athugasemdir mínar hér. Mér þykir þetta sérstakt.

Að lokum vil ég gera að umtalsefni tekjur Ríkisútvarpsins. Á þessu þingi hef ég setið í fjárlaganefnd og þar situr líka hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Björgvin G. Sigurðsson. Kynnt hafa verið fyrir nefndinni frumvarpsdrög, eða frumvarp, um að afnema markaðar tekjur eins og hér er verið að binda í lög að renni til Ríkisútvarpsins. Ég ætla ekki að gera að umræðuefni nú að hér er um að ræða útgjaldaaukningu úr ríkissjóði til Ríkisútvarpsins heldur það að verið er að íhuga að taka burt með lögum markaðar tekjur. Á sama tíma og rætt er um í fjármálaráðuneyti og innan fjárlaganefndar að afnema með lögum markaðar tekjur, og ríkir eftir því sem ég get best lesið í þá nefnd velvild til þess, ætlum við á sama tíma að binda í lög um Ríkisútvarpið nokkuð sem gengur í berhögg við það sem íhugað er að gera í fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Þetta eru andstæðir pólar. Samhliða því að innan fjármálaráðuneytisins er verið að fjalla um ný lög um fjárreiður ríkisins þar sem menn ræða fjármálastefnu, fjármálaáætlun og síðan fjárlög, á sama tíma og verið er að ræða þá breyttu hugsun, er hér verið að setja inn ákveðnar hressilegar breytingar varðandi tekjustofna Ríkisútvarpsins eins og fram kemur í 14. gr. Ég lýsi mig algerlega ósammála 12. og 14. gr. (Forseti hringir.) og vil fá nánari útskýringar ef hægt er á 17. gr.