141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru margar og málefnalegar spurningar sem allar verðskulda svar. Ég ætla að tæpa á þeim eins og kostur er á stuttum tíma.

Fyrir það fyrsta var unnið mjög vandlega að þessu máli í nefndum á tveimur þingum og um það skapaðist nokkuð víðtæk pólitísk samstaða. Þingmenn allra flokka eru á nefndarálitinu núna til 3. umr. nema fulltrúar Sjálfstæðisflokks þannig að ágæt samstaða hefur skapast um málið þótt það hefði auðvitað verið gott ef náðst hefði algjör samstaða.

Hvað varðar mörkuðu tekjurnar tel ég að ef og þegar það frumvarp kemur fram og verður samþykkt í framtíðinni, það verður ekki í tíð þessa þings þar sem þetta kjörtímabil er að ganga til enda, muni það auðvitað ná yfir þær líka. En meðan núverandi fyrirkomulag er viðhaft, sem við búum við og höfum gert um áratugi, er eðlilegt að útvarpsgjaldið sem er innheimt til að standa undir Ríkisútvarpinu gangi til þess.

Að því er varðar stjórnvaldssektirnar og 7. og 17. gr. komu mjög fínar spurningar. Mikilvægt er að það komi fram og liggi fyrir — ég hafði samband við lögfræðinga á nefndasviði til að hafa það alveg á hreinu, að ákvæðið um að fjölmiðlanefnd geti lagt á stjórnvaldssektir á Ríkisútvarpið sé brotið gegn 7. gr. um viðskiptaboð, þá er það að auki. Það er sem sagt til viðbótar við aðrar stjórnvaldssektir sem fjölmiðlanefnd getur lagt á Ríkisútvarpið. Þetta er ekki einvörðungu út af viðskiptaboðum og brotum á 7. gr. heldur að auki. Verið er að árétta að ef brotið verður á viðskiptaboðum, þar sem gengið er úr skugga um að ekki sé verið að blanda saman íburðarmikilli dagskrá, auglýsingum, keyptu efni o.s.frv., er þetta til viðbótar og að auki við aðrar stjórnvaldssektir sem fjölmiðlanefnd getur lagt á, sem sagt ekki einvörðungu heldur árétting og að auki. Það er mikilvægt að þetta komi fram. Þetta er skilningur minn og nefndasviðs á þessu ákvæði.