141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:38]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég vildi taka undir hvað varðar nefskattinn, útvarpsgjöldin, þá er hann svo sannarlega undir gagnrýni seldur. Ég held að hann hafi ekki verið breyting til hins betra. Ég held að það sé óheppileg aðferð við að fjármagna Ríkisútvarpið. Ég talaði fyrir því þá þegar því var breytt og ég er enn á þeirri skoðun. En við búum við þetta kerfi. Og ef og þegar að því kemur að við leggjum af afmörkuðu tekjustofnana þá held ég að það kalli um leið á að menn breyti fyrirkomulaginu um fjármögnun RÚV. Menn greiði bara ákveðin afnotagjöld, þeir sem eru á ákveðnum aldri, á ákveðnu tekjubili o.s.frv. Það er miklu betri leið til að fjármagna þetta.

Hvað varðar aftur hitt með viðskiptaboðin þá er talið, af því að þetta eru sérstök lög um Ríkisútvarpið, að gríðarlega mikilvægt hafi verið að afmarka þau frá öðru dagskrárefni Ríkisútvarpsins, að það þyrfti að vera grein um stjórnvaldssektir sem áréttaði það að fjölmiðlanefnd gæti lagt á sektir væru brot á þessum greinum.

Hins vegar er ég sammála öðru sem mátti skilja þannig að nauðsynlegt og heppilegt væri að ræða þessi mál nokkurn veginn samhliða eins og við höfum verið að gera, þ.e. fjalla um þau í nefndinni á þessu kjörtímabili og í þinginu. Núna höfum við afgreitt frá allsherjar- og menntamálanefnd endurskoðun á eignarhaldinu í fjölmiðlalögunum sem vonandi kemur inn í þingið á fimmtudaginn. Það er mjög gott að afgreiða svona endurskoðanir samhliða því að þær kallast mikið á, þær skarast svo oft. Ríkisútvarpið er hin mikla kjölfesta á íslenskum ljósvakamarkaði og fjölmiðlalögin þurfa að liggja mjög heppilega meðfram Ríkisútvarpslögunum þannig að við munum örugglega ræða 55. og 56. gr. og þá stjórnvaldsmálið líka. Ástæðan fyrir því að þetta er sett inn er árétting og er tekið sérstaklega á því út af mikilvægi þess að greina algerlega þarna á milli.